146. löggjafarþing — 57. fundur,  6. apr. 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[21:36]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (V):

Frú forseti. Ég held einmitt að verkefnið sem ég kynnti í dag á Hótel Sögu, Bændahöllinni, geti einmitt stuðlað að þessu, þ.e. Matarauður Íslands. Við þurftum að breyta um nafn, Matvælalandið Ísland var til fyrir í öðru verkefni svo það myndi ekki valda ruglingi. Ég held einmitt að orðið matarauður lýsi verkefninu nefnilega ágætlega. Við erum að tala um þetta hér innan lands, þetta er ekki ætlað til útflutnings, þetta er ætlað að byggja upp menninguna, umhverfið hér heima á sviði matvælagreina. Við erum að tala um að auka vitundina um matarmenningu okkar, um hvaða fjölbreytileika matvæli okkar hafi í rauninni fram að færa, menninguna í tengslum við hana; menningin og sagan. Við vitum það sjálf þegar við förum til útlanda að áhuginn á því er mikill hvað heimamenn hafa fram að færa, hver sérstaða heimamanna er á hverju sviði. Það er svo lýsandi fyrir það að tengjast betur þjóðinni. Ég held og er sannfærð um það að í gegnum matarmenningu okkar Íslendinga þá muni ferðamenn tengja enn betur. Þar eru m.a. sóknarfærin fyrir okkur í landbúnaði. Það er vissulega áhyggjuefni þar sem túristum, ferðamönnum á Íslandi, hefur fjölgað svona mikið, komnir upp í 2 milljónir, fara væntanlega upp í 2,5, 2,6 á þessu ári, að neysla þeirra t.d. á lambakjöti skuli ekki vera meiri. En þar er ég líka bjartsýn á að við getum stuðlað að aukinni neyslu því að við erum komin með og erum með frábæra matreiðslumenn sem eru byrjaðir að breyta því hvernig þeir framreiða kjötið.

Það er ekki sjálfgefið að fólki finnist endilega lambakjöt gott. Það er ekki í þeirra uppeldi eins og er hjá okkur. Sorglegt fyrir það, en ferðamennirnir hafa um leið tækifæri til að kynnast okkar íslenska frábæra lambakjöti. Það gerum við með því að elda á mismunandi hátt, tengja það við söguna, tengja það á alls konar hátt. Einn talaði um tröllin, horfði á mig og sagði: Við getum kynnt þig fyrir tröllunum, einhver hugrenning var þar. En ég held að það sé margt til sem við getum gert með okkar matarmenningu og þá um leið ýtt undir matvælaframleiðslu, mataráhuga og hugsanlega um leið unnið á þeirri offramleiðslu sem við höfum á dilkakjöti.