146. löggjafarþing — 57. fundur,  6. apr. 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[21:39]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Virðulegi forseti. Vísað var í könnun sem ég rakst á að um 74% Íslendinga telja lambakjöt og lambakjötsrétti vera þjóðarrétt okkar. Það hlýtur eiginlega að vera markmið okkar að enginn þykist maður með mönnum sem komið hefur til Íslands án þess að hafa smakkað lambakjötið okkar. Sama má segja um fiskmetið, fólk kemur ekki til Íslands án þess að borða fiskinn okkar.

Sem dæmi núna meðan við höfum verið í þessari umræðu hér, þá hef ég öðru hvoru fylgst með David Lebovitz á Instagram hjá sér, þekktur bloggari, kokkur og rithöfundur, þar sem hann er greinilega hér á landinu, er með 152.000 fylgjendur á Instagram. Hann er að sýna íslensku matarflóruna. Hann er núna á Kol að borða lambakjöt og hann var að borða snúðana okkar, var sem sagt í morgunmatnum þar. Þetta skiptir alveg gífurlega miklu máli. Mér skilst að sauðfjárbændur séu að reyna að koma lambakjötinu inn í Bocuse d'Or keppnina sem er náttúrlega gífurlega stór viðburður og íslenskir kokkar eru að ná góðum árangri þar. Við sjáum að fyrsti veitingastaðurinn okkar er að fá Michelin stjörnu sem er líka stór viðburður. Ég er alltaf að verða sannfærðari um að það séu einmitt alveg gífurleg tækifæri ef við förum að horfa á þetta. Ég held að ráðherrann sé að nálgast þetta þegar hún fer að tala um þekkingarlandbúnaðinn, þegar hún fer kannski með sína fortíð sem menntamálaráðherra og reynir að koma þessu á framfæri, við reynum að mennta fólk í því hvernig við getum þróað okkar vöru, og bjóða upp á það að fólk komi ekki til Íslands án þess að borða íslenskan mat. Þá þurfum við ekkert að hafa áhyggjur af neinum útflutningi. Eða jafnvel innflutningi.