146. löggjafarþing — 57. fundur,  6. apr. 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[21:41]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (V):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Eygló Harðardóttur fyrir þessa skemmtilegu og gefandi nálgun varðandi matvælaframleiðsluna okkar. Þetta er alveg hárrétt hvað varðar kokkana okkar, nemana okkar, t.d. í MK. Ég var viðstödd opnunina á Food & Fun í byrjun þar sem þeir voru þar, nemarnir, að kynna það sem þeir voru að gera. Hugsunin, nálgunin, þetta var svolítið eins og vera bara í listaháskóla hvernig þeir hugsuðu þetta, nýttu sér hraunið, nýttu sér alls konar nýjar leiðir. Maður hugsaði: Það verður bara ný framleiðsla, það verður bara eitthvað annað sem við þekkjum jafnvel ekki sem þeir, eða þau, munu bjóða túristum og ferðalöngum framtíðarinnar upp á. Þetta er nefnilega það sem þau eru að gera, þau eru að tengja þetta við dínamík annarra atvinnugreina, hönnuða, listgreina, hugsanlega stálsmíði líka, eða annarra iðngreina, inn í matarmenninguna. Það er það sem mér finnst svo ótrúlega spennandi.

Gefum okkur að það komi — við erum að tala um 2, 2,5 milljónir á þessu ári — 2 milljónir túrista. Hver túristi er hér í kannski viku, borðar tvær máltíðir á dag, ég borða oftast fjórar með millimáli og fleiru, en tvær máltíðir á dag, gefum okkur það. Það þýðir 77.000 máltíðir á dag, á hverjum einasta degi. Það er alveg ótrúlegt magn sem við þurfum að reyna að afla til þess að þeir nái að metta sig þessa daga, þessir ágætu ferðalangar.

Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir að hafa komið upp og dregið fram þessa jákvæðu þætti sem eru að gerast í landbúnaðinum í tengslum við ferðaþjónustuna. Það skiptir miklu máli.

Örstutt varðandi risamálið, sem hv. þingmaður kom inn á í fyrri spurningu sinni, sáttina, að hugsanlega væri bara ekki hægt að ná henni. Ég segi: Ef ég trúi ekki á sáttina, því að maður er að berjast fyrir henni, hverjir aðrir eiga að trúa á hana þá? (Forseti hringir.) Ég trúi því einlægt að hægt sé að gera það. Það kostar það að stjórnmálin leggist á árarnar að (Forseti hringir.) ná þeirri sátt. Við þurfum öll að gefa eftir, en við þurfum að hafa framtíðarsýn.