146. löggjafarþing — 57. fundur,  6. apr. 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[21:57]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Frú forseti. Mig langar að byrja að biðja hæstv. ráðherra um að fara aðeins nánar út í stóru myndina í heilbrigðismálunum. Þegar aukningin til heilbrigðisþjónustu er brotin niður og það tekið frá sem fer til byggingar Landspítala – háskólasjúkrahúss, þ.e. til byggingarinnar sjálfrar, til tækjakaupaáætlunar, til stóru sjúkrahúsanna, til að stytta biðlista og fleira sértækt, sem er auðvitað allt jákvætt, velti ég fyrir mér, því að það er ekki auðvelt að sjá það, hvað stendur þá í rauninni eftir til raunverulegs rekstrar heilbrigðisþjónustunnar og heilbrigðismálanna og til úrbóta í heilbrigðisþjónustu samkvæmt áætluninni. Ég vil annars vegar spyrja hæstv. ráðherra um það.

Hins vegar langar mig að biðja hæstv. ráðherra að fjalla aðeins betur um áformin um uppbyggingu hjúkrunarheimila, sem ég velti fyrir mér hvort sé ekki langt frá því að mæta þörfum. Ef ég heyrði rétt þá sagði hæstv. ráðherra að talað væri um fjögur ný hjúkrunarheimili. Á bls. 304 í fjármálaáætluninni er talað um byggingu þriggja nýrra hjúkrunarheimila, tveggja á höfuðborgarsvæðinu og eins í Árborg, en í yfirlitskafla á bls. 68 segir hins vegar að gert sé ráð fyrir að reisa fimm ný hjúkrunarheimili, þar af þrjú með beinni kostnaðarþátttöku ríkissjóðs. Á þá að byggja eitthvað annað sem er einhvern veginn öðruvísi fjármagnað? Ef hæstv. ráðherra gæti svarað því í fyrstu lotu.