146. löggjafarþing — 57. fundur,  6. apr. 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[21:59]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Óttarr Proppé) (Bf):

Frú forseti. Ég þakka spurningarnar sem eru margar. Ég skal reyna að tala mjög hratt.

Þegar við horfum á heilbrigðismálin í heild er u.þ.b. 22% hækkun á fjárframlögum á tímabilinu allt í allt. Það sýnir að heilbrigðismálin eru sett í forgang. Það er vissulega rétt hjá hv. þingmanni að bygging nýs Landspítala er mjög stór þáttur af þessum auknu útgjöldum. Okkur telst til að það sé u.þ.b. 10% aukning ef bygging sjúkrahússins er tekin frá í áætluninni eins og hún stendur núna. Þess ber að geta og mikilvægt er að gleyma því ekki, að á árinu sem er að líða, 2017, er einhver mesta aukning í útgjöldum til heilbrigðismála í manna minnum, eða rétt um 10% sem við höldum inni. Bara þegar kemur að útgjöldum til sjúkrahúsanna er það yfir 5 milljarða aukning miðað við árið í fyrra. Þannig verður það 2018 og áfram.

Örsnöggt í sambandi við uppbyggingu hjúkrunarheimila. Fjögur ný heimili eru í undirbúningi eða í byggingu núna. Byggingu þeirra verður lokið, en síðan er gert ráð fyrir því að bætt verði í á seinni hluta tímabilsins, 2020, 2021 og 2022, ef ég man rétt. Þar er gert ráð fyrir þremur nýjum hjúkrunarheimilum beinlínis á vegum ríkisins. Síðan eru sveitarfélögin líka með áform um uppbyggingu á hjúkrunarheimilum. Þaðan kemur væntanlega (Forseti hringir.) þessi tala, fimm ný hjúkrunarheimili til viðbótar.