146. löggjafarþing — 57. fundur,  6. apr. 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[22:06]
Horfa

Gunnar Hrafn Jónsson (P):

Frú forseti. Hér hafa þingmenn stjórnarandstöðunnar staðið klukkutímum og dögum saman og útskýrt í smáatriðum af hverju þessi áætlun er vond og í raun hættuleg. Það eru sorgleg svör sem við höfum fengið hingað til frá ráðherrunum og hinum svokallaða meiri hluta sem þó fékk minni hluta í kosningum. Það eru sorgleg svör, frú forseti, af því að við stöndum á tímamótum sem þjóð, sama hvort fólk gerir sér grein fyrir því eða ekki. Það er neyðarástand í heilbrigðiskerfinu, alls óvíst að hagvöxtur haldi áfram og það sem við gerum núna mun hafa afdrifaríkar afleiðingar. Hæstv. heilbrigðisráðherra Óttarr Proppé hefur mátt þola ýmsar árásir eftir að hann gekk til þessa óvinsæla stjórnarsamstarfs sem hefur þurrkað út bæði hans flokk og Viðreisn í könnunum. Ýmsir álitsgjafar hafa sakað hæstv. ráðherra um að selja sál sína fyrir ráðherrastól og segja hann hafa sýnt með því mikla valdagræðgi, tækifærismennsku og aðra jafnvel verri mannkosti sem ég mun ekki telja upp hér. Því trúi ég alls ekki, frú forseti. Þetta er nógu lítið samfélag til að maður geti þekkt fólk af afspurn og gegnum vinatengsl, þekkt það nægilega vel til að vita að hæstv. Óttarr Proppé er ekkert illmenni. Þvert á móti held ég að honum gangi gott eitt til með stjórnarsamstarfinu og hafi litið á það sem sitt hlutverk að hafa mildandi áhrif á þessa annars vondu öfgastjórn. Það hefur bara mistekist. Þótt ég skilji vel að hæstv. ráðherra eigi erfitt með að horfast í augu við það á þessu stigi málsins þá sést það vel á þessari fjármálaáætlun.

Þingið er að samþykkja áætlun til fimm ára sem setur allt samfélagið og heilbrigðiskerfið í spennitreyju til fimm ára, svo ég vitni til álits fjármálaráðs. Ég veit að hæstv. ráðherra telur sig vera að gera það besta í stöðunni. Ég veit hins vegar líka að hann hefur rangt fyrir sér. Ég veit að hann er gæddur nógu miklum mannkostum til að sjá að sér, því að það er orðið ljóst. Ég trúi því að þegar fram líða stundir og áhrifin blasa við muni hæstv. ráðherra Óttarr Proppé biðjast afsökunar á gjörðum sínum hér í dag.

Frú forseti. Hér er verið að gera afdrifarík mistök. Á endanum mun enginn velkjast í vafa um það.