146. löggjafarþing — 57. fundur,  6. apr. 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[22:34]
Horfa

Jóna Sólveig Elínardóttir (V):

Frú forseti. Mig langar að byrja á að fagna því sem fram kemur í fjármálaáætluninni, en hún sýnir, svo að ekki verður um villst, að ríkisstjórnin forgangsraðar í þágu heilbrigðis- og velferðarmála. Þetta er metnaðarfull áætlun og ég verð að segja að hér hefur ráðherra haldið mjög vel á spöðunum í viðræðum við hæstv. fjármálaráðherra. Að því sögðu geri ég svo sem ekki ráð fyrir því, frú forseti, að hæstv. heilbrigðisráðherra hafi þurft að snúa neitt sérstaklega fast upp á handlegg hæstv. fjármálaráðherra enda er það algjörlega í samræmi við stefnu Viðreisnar og ríkisstjórnarinnar að forgangsraða í þágu þessa málaflokks sem við ræðum hér og það er gleðiefni.

Mig langar sérstaklega að nefna aukið aðgengi að geðheilbrigðisþjónustu. Samkvæmt áætluninni er gert ráð fyrir verulega bættu aðgengi að geðheilbrigðisþjónustu á heilsugæslustöðvum, m.a. með fjölgun stöðugilda sálfræðinga úr 22,5 upp í 40 fyrir árið 2022. Einnig fagna ég því að í áætluninni er gert ráð fyrir styttingu biðtíma eftir þjónustu göngudeildar barna- og unglingageðdeildar Landspítalans. Það er nefnilega svo, eins og við öll vitum, að góð geðheilsa skiptir ekki bara miklu máli fyrir þá sem njóta hennar heldur er hún líka gríðarlega mikilvæg forsenda hagvaxtar og félagslegrar þróunar í samfélaginu.

Þessar áherslur eru einmitt eitthvað sem hefur verið mjög ofarlega á baugi innan Evrópusambandsins, en innan þess er mikið fjallað um tengsl góðrar geðheilsu og lífsgæða einstaklinga og líka góðrar geðheilsu og framleiðni og hagvaxtar. Mig langar að spyrja ráðherra í tengslum við þetta hvort sett hafi verið einhvers konar markmið eða gerð áætlun eða úttekt á því hversu mikil áhrif bætt geðheilsa landsmanna gæti haft á hagvöxt og framleiðni á Íslandi til lengri tíma litið.