146. löggjafarþing — 57. fundur,  6. apr. 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[22:38]
Horfa

Jóna Sólveig Elínardóttir (V):

Frú forseti. Mig langar að þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Mig langar í þessu seinna innlegginu mínu um fjarheilbrigðisþjónustuna að byrja á því að koma inn á atriði sem skiptir líka gríðarlega miklu máli um land, þá sérstaklega á landsbyggðinni, en það er heilsugæslan. Mig langar að byrja á að fagna þeim áætlunum sem birtast hér um að styrkja eigi heilsugæsluna sem fyrsta viðkomustað. Þetta er sérstaklega mikilvægt í þeim kjördæmum þar sem heilsugæslan er meginþjónustuveitandi í heilbrigðismálum, þ.e. í landsbyggðakjördæmunum. Þar er sannarlega þörf á betra aðgengi að þjónustu heilsugæslu um land allt. Þess vegna vil ég fagna því sérstaklega að gert sé ráð fyrir fjölgun mismunandi faghópa, sem ráðherra kom einmitt inn á áðan í sínu innleggi, í hverju einasta heilbrigðisumdæmi, þ.e. að lágmarki verði sex faghópar í hverju heilbrigðisumdæmi árið 2022 sem er frábært. Í þessu felst sannarlega mikil þjónustubót fyrir skjólstæðinga úti á landsbyggðinni. Því ber að fagna.

Jafnframt er gert ráð fyrir að þjónusta heilsugæslu verði aðgengilegri þannig að hlutfall sjúklinga í bráðamóttöku sjúkrahúsa, sem ættu frekar að fá þjónustu á heilsugæslunni, lækki úr 20% í 10% fyrir árið 2022. Þetta er gríðarlega mikilvægt til að draga úr álagi á Landspítalanum og því mjög gott að fjármagn sé komið til að mæta þessari brýnu þörf, því að þetta mun síðan verða til þess að bæta mjög svo þjónustuna á Landspítalanum.

Mig langaði að spyrja hæstv. ráðherra út í fjarheilbrigðisþjónustuna, sem hann minntist aðeins á í sínu fyrra svari. Í fjármálaáætlun segir að unnið verði í samræmi við tillögu starfshóps um fjarheilbrigðisþjónustu frá maí 2016. Það vakti athygli mína að ég gat ekki séð í fljótu bragði að gert væri ráð fyrir kostnaði í þeirri töflu sem ég skoðaði. Mig langaði því að spyrja hæstv. ráðherra hvort það sé rétt að draga þá ályktun að innleiðingu fjarheilbrigðisþjónustu sem þjónustuforms fylgi enginn kostnaður?