146. löggjafarþing — 57. fundur,  6. apr. 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[22:47]
Horfa

Nichole Leigh Mosty (Bf):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin og hlakka til að við hefjum þessa vinnu.

Næst vil ég biðja hæstv. heilbrigðisráðherra að eiga samtal við mig um hjúkrunar- og dvalarrými. Fyrir ekki löngu fengum við í hv. velferðarnefnd ítarlega kynningu frá ráðuneytinu um málaflokkinn. Ég sé í fjármálaáætlun að hægt er að finna mjög metnaðarfull markmið, þau eru að veita þjónustu í takt við færni og heilsu og lágmarka þörf fyrir dvöl á stofnun, fjölgun hjúkrunarrýma og að bæta aðbúnað hjúkrunarrýma í samræmi við viðmið velferðarráðuneytisins. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra hver þessi viðmið séu.

Hér eins og í mörgum öðrum málaflokkum sem tilheyra okkur í hv. velferðarnefnd er um að ræða málefni með slíkt flækjustig eða réttara sagt áskoranir þar sem eru óskýr skil ábyrgðar milli ríkis og sveitarfélaga sem hefur dregið úr skilvirkni í þjónustu og hagkvæmni í nýtingu fjár. Ég vil biðja hæstv. ráðherra að lýsa aðeins fyrir mér hversu mikil fjölgun verður á hjúkrunarrýmum og spyrja hvernig hann sjái fyrir sér að best verði háttað þessu samráði og samstarfi við sveitarfélögin til að mæta áskorunum og bæta skilvirkni og hagkvæmni í þessum mikilvæga málaflokki.

Einnig ef tími gefst til vil ég biðja hæstv. ráðherra að ræða styttingu á biðtíma fólks eftir endurhæfingarrými. Fyrr í kvöld átti ég samtal við hæstv. félags- og jafnréttismálaráðherra um hvernig málefni aldraðra verða bætt í lífeyriskerfinu og almannatryggingum. Ég tel að hér sé um að ræða málaflokka sem haldast í hendur. Í Bjartri framtíð er einn lykilþátturinn að bæta lífsgæði aldraðra. Hluti af því er að tryggja aðgengi að hjúkrunarrýmum sem dregur úr nauðsyn þess að aldraðir dvelji á bráðasjúkrahúsum með tilheyrandi óhagræði fyrir einstaklinginn sjálfan (Forseti hringir.) og kerfið í heild. Það er mjög mikilvægt að heyra hvað ætlast er fyrir.