146. löggjafarþing — 57. fundur,  6. apr. 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[22:52]
Horfa

Guðjón S. Brjánsson (Sf):

Virðulegur forseti. Ekki veit ég hvað þeir voru að hnoðast saman, hæstv. ráðherrar, eins og hv. þm. Jóna Sólveig Elínardóttir ýjaði að, en sú glíma endaði með bræðrabyltu. Og hver vann? Eins og vanalega, Sigtryggur vann. Ekki fólkið í landinu sem trúði því statt og stöðugt að þessir flokkar stæðu við að bæta heilbrigðisþjónustuna, bæta verulega í, að það yrði viðsnúningur. Nei, það verður að bíða betri tíma, bíða þess að mannúðlegri stjórnvöld komist til valda.

Ég óska hæstv. heilbrigðisráðherra til hamingju með þau áform að byggja 292 ný hjúkrunarrými. Það er full þörf fyrir þau öll á höfuðborgarsvæðinu. Manni hlýnar um hjartarætur. En það er skammgóður vermir því að ég átta mig ekki á því hvernig á að starfrækja þessi hjúkrunarrými. Það á að verja til þeirra 5 milljörðum, til allrar hjúkrunarþjónustu. Þeir 5 milljarðar duga ekki nema sennilega í eitt og hálft ár. Þá á eftir að fjölga dagdvalarrýmum, sem eru mjög góð úrræði, og endurhæfingarrýmum og það á eftir að verja fé til að endurbæta stofnanir fyrir aldraða úti um allt land sem fæstar hverjar uppfylla öryggisstaðla og byggingarreglugerðir. Þetta kostar marga milljarða. Ofan í kaupið erum við að glíma við vanfjármögnuð hjúkrunarheimili nú þegar í dag. Það er áhyggjuefni. Það er bara tifandi tímasprengja.

Síðan erum við með sjúkrahúsþjónustuna á milli áranna 2017 og 2018 og ekki á að bæta neinu í. Við getum ekki, virðulegur forseti, lagt það á stjórnendur á Landspítala og á öðrum heilbrigðisstofnunum að þurfa að reyta hár sitt á torgum og í fjölmiðlum og hér í hliðarsölum Alþingis (Forseti hringir.) til að tryggja að ekki verði katastrófa inni á stofnununum.