146. löggjafarþing — 57. fundur,  6. apr. 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[23:01]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Frú forseti. Ég verð að byrja á að segja að ég sakna þess að hafa ekki séð formann fjárlaganefndar í dag. Hér er einungis einn fulltrúi úr fjárlaganefnd meiri hlutans. Mér þykir mjög miður að þeir skuli ekki vera hér og hlusta í dag eins og við í minni hlutanum höfum þó gert.

Við erum ekki bara að fjalla um betri rekstur og gagnsæi í fjármálum ríkisins, við erum að fjalla um fólkið í samfélaginu og hvernig við skiptum fjármunum ríkisins til sameiginlegrar neyslu. Skattalækkanir undanfarinna ára hafa veikt tekjustofna ríkisins og dregið hefur úr aðhaldi ríkisfjármálanna í meiri uppsveiflu. Það þýðir að tekjustofnar ríkisins nægja ekki til að fjármagna nauðsynleg útgjöld til uppbyggingar innviða og velferðar þrátt fyrir uppsveifluna. Sex einstaklingar eiga nú jafn mikið og helmingur mannkyns. Auðurinn sópast frá þeim sem minnst eiga og safnast á hendur hinna fáu sem eiga mest.

Sú fjármálaáætlun sem við fjöllum um hér mun ekki sækja fjármuni til þeirra sem meira hafa til að styrkja samneysluna og áform um aukna einkavæðingu og útvistun er það sem koma skal. Aðhaldið sem hér er boðað verður til þess að rekstur sjúkrastofnana hangir áfram á horriminni. Áform um fjölgun hjúkrunarrýma fram til ársins 2022 eru ekki nema rúmlega helmingurinn af áætlaðri viðbótarþörf fyrir ný hjúkrunarrými til ársins 2020.

SAk situr eftir enn og aftur, Sjúkrahúsið á Akureyri, þar til í lok þessarar áætlunar en þá á að hefja undirbúning verksins. Þrátt fyrir langt tímabil hagvaxtar segir ráðherrann að ekki sé hægt að setja meira fé fyrr en um mitt tímabil áætlunarinnar í þennan mikilvæga málaflokk, en þó glittir í heimsmetaorðræðuna þegar ráðherra heilbrigðismála segir aldrei hafa verið eins vel gert.

Ekki stendur til að gera breytingar á réttindum örorkulífeyrisþega í almannatryggingakerfinu til samræmis við þær breytingar sem gerðar hafa verið á réttindum ellilífeyrisþeganna fyrr en á árinu 2019. Það þýðir að öryrkjar búa áfram við flókið kerfi og með krónu á móti krónu skerðingum, sem kemur verulega illa við þann hóp sem verst stendur.

Fæðingarorlof á að hækka í þrem áföngum um 100 þúsund kall, úr 500 í 600 þúsund. Það væri kannski skynsamlegt að horfa til þess að lengja það líka í eitt ár og sjá til þess að allir hafi að minnsta kosti að lágmarki 300 þúsund.

Loksins á að lögfesta notendastýrða persónulega aðstoð, en því miður er það gert í ágreiningi við sveitarfélögin, eins og sjá má af framlögðu frumvarpi félagsmálaráðherra, en þar greinir aðila á um hundruð milljóna. Allt er á sömu bókina lært hvað varðar samskipti við sveitarfélögin. Samkomulagið sem gert var um fjármálastefnuna þar sem taka átti á gráu svæðunum er hjómið eitt og birtist okkur hér.

Háskólarnir eru langt frá því að ná viðmiðum OECD og Norðurlandanna. Framhaldsskólarnir eru skornir niður um 1.700 milljónir á tímabilinu og loforð eru svikin um að fjármunir sem féllu til við styttingu námsins í þrjú ár yrðu eftir í framhaldsskólakerfinu.

Hvað með Listaháskólann, sem er í heilsuspillandi húsnæði? Er gert ráð fyrir að hann komist í langtímahúsnæði? Það sé ég ekki.

Umhverfismálin, loftslagsmálin, mál málanna, þau fá milljarð á næsta ári, lækka svo en hækka svo örlítið árið 2020. Málaflokkur sem ætti að vera í öndvegi fær hér slæma útreið.

Þrátt fyrir nýtt dómstig lækka framlög á tímabilinu um tæpar 400 milljónir. Dómstólasýslan sem á að vera ný og sjálfstæð stjórnsýslustofnun og á að takast á við umfangsmikil verkefni fær ekki til þess fjármuni, en eins og segir á bls. 116 með leyfi forseta:

„Svigrúm fjármálaáætlunar er ekki nægjanlegt til að fjármagna þessi áform.“

Löggæslan hefur þurft að takast á við ótrúlega mörg verkefni, m.a. vegna aukins ferðamannastraums, sem kallar á aukna landamæragæslu og hálendiseftirlit: Áhersla er á netglæpi, kynferðisbrot og heimilisofbeldi, en samt sjáum við í fréttum að barnaníðingur er laus allra mála vegna þess að lögreglan hefur ekki haft mannskap og úrræði.

Gæslan á nú loks að fá að endurnýja þyrlur en erfitt er að sjá að hægt verði að manna þær og skipin okkar með viðunandi hætti, enda kemur fram á bls. 181 að stefnt sé að því að styrkja rekstur Gæslunnar að nokkru leyti á tímabili áætlunarinnar til að mæta lækkuðum tekjum af erlendri starfsemi. Með leyfi forseta:

„Fjárhagslegt svigrúm til fjölgunar áhafna á þyrlur og varðskip er því miður lítið.“

Eru fangelsismálin fullfjármögnuð? Ég veit það ekki og get ekki lesið það út úr þessari fjármálaáætlun. Mál hafa verið að fyrnast undanfarin ár. Samkvæmt áætluninni bíða 550 manns afplánunar. Vandi sýslumanna var viðurkenndur í fjárlagavinnu nú í haust, en eins og kemur fram á bls. 193 næst ekki jafnvægi í rekstri embættanna nema leyst verði úr eldri halla og fjárveitingar auknar. Uppsafnaður halli nemur 266 milljónum. Að öðrum kosti, ef þessu er ekki mætt, mun þurfa að draga verulega úr starfsemi embættanna í formi fækkunar afgreiðslustaða og starfsfólks. Það þýðir fækkun opinberra starfa, m.a. á landsbyggðinni. Ef nýta ætti eingöngu uppsagnir eru það 53 starfsmenn sem hér um ræðir.

Innanríkisráðuneytið hefur fengið aðgerðalista um fækkanir á afgreiðslustöðum. Ég verð að spyrja: Hvað ætlar ríkisstjórnin að ganga langt í fækkun?

Samgöngu- og fjarskiptamál fá 5 milljarða á ári, sem staðfestir að ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar ætlar ekki að standa við kosningaloforð um uppbyggingu vegakerfisins. Almenningssamgöngurnar bæði á sjó og landi vantar í kringum 250 milljónir árlega til að rétta úr kútnum. Ég sé ekki að gert sé ráð fyrir þeim í þessari áætlun. Hafnirnar og flugvellirnir hafa algerlega setið á hakanum þrátt fyrir að lög segi að ríki eigi að taka þátt í hafnaruppbyggingu. Síðasta ríkisstjórn gat ekki einu sinni klárað flughlaðið á Akureyri þrátt fyrir gefins haug af efni. Nú er boðað að einhverjum flugvöllum verði lokað. Í ár er t.d. eingöngu veitt fé í rekstur flugvalla en ekkert til viðhalds.

450 milljónir eru settar í ljósleiðara næstu þrjú ár. Við verðum að halda því til haga að kostnaður sveitarfélaga og íbúa er gríðarlega mikill og það var ekki uppleggið í upphafi málsins. Enn er talað um fjölda tenginga en ekki að koma á tengingum til litlu, afskekktu byggðanna.

Það þarf að fækka í rannsóknarnefnd samgönguslysa þar sem ekki næst utan um málaflokkinn með öðrum hætti, enda ekki lagðir fjármunir til þess í fjármálaáætluninni. Ætti þessi nefnd kannski að vera með sérstakt rannsóknar- og aðgerðafé? Við skulum velta því fyrir okkur.

Samgönguráðherra sagði að á næstunni kæmi fram byggðaáætlun til sjö ára og verður áhugavert að sjá hvort ekki verður veruleg aukning fjár í sóknaráætlanir því að miðað við fjárlög 2017 er gert ráð fyrir óbreyttu fjárframlagi næstu fimm árin. Í aðra röndina er talað um að færa verkefni nær heimamönnum en svo fylgir sáralítið fjármagn.

Hvað varðar hækkun á virðisaukaskatti á ferðaþjónustuna er afar mikilvægt að unnar verði greiningar á því hvernig þetta komi við greinina, ekki síst í hinum dreifðu byggðum þar sem ferðaþjónustan skiptir miklu máli en er ekki enn orðin heilsársgrein. Það er alveg ljóst að einhvers konar mótvægisaðgerðir þurfa að koma til. Ekki er hægt að ganga einvörðungu út frá því hvernig greinin vex á völdum stöðum. Við erum með svokölluð köld svæði, ef svo má komast að orði, en þó skiptir sú atvinna sem ferðaþjónustan skapar þar afar miklu máli þegar kemur að búsetu fólks.

Í stefnu ríkisstjórnarinnar er ekki að finna neitt um húsnæðismál. Í áætluninni lækka stofnframlögin þrátt fyrir að ljóst sé að sá íbúðafjöldi sem áður var rætt um að þyrfti næstu árin dugar engan veginn til. Vaxtabætur lækka verulega frá árinu 2020 og verða óbreytt að raunvirði.

Ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar ætlar samkvæmt fjármálaáætluninni að verja 0,26% af vergum þjóðartekjum til þróunarmála á ári hverju út tímabilið, en til upprifjunar hefur Ísland undirgengist alþjóðlegar skuldbindingar um að fylgja markmiði Sameinuðu þjóðanna um að iðnríki veiti 0,7% af vergum þjóðartekjum til þróunarsamvinnu. Ekkert bólar á því að Ísland muni uppfylla þessi markmið næstu fimm árin eins og Norðurlöndin hafa gert í áraraðir. Það er skömm ríkisstjórnarflokkanna að leggja slíkt til á tímum efnahagslegs uppgangs.

Fyrirliggjandi er að kjarasamningar um þriðjungs starfsmanna ríkisins eru lausir, þar á meðal kennara, Bandalags háskólamanna og Læknafélags Íslands. Skilaboð fjármálaráðherra eru þau að takmarkað svigrúm sé til launahækkana og í áætluninni er einungis gert ráð fyrir 1,5% viðmiði í kaupmáttaraukningu. Mér þykir afar ólíklegt að þessir aðilar sætti sig við slíkt lítilræði.

Að síðustu er Alþingi gert að draga saman seglin þrátt fyrir yfirlýsingar um að styrkja þingið og þingmenn, sem mikil þörf er á, ekki síst nú þegar við tökumst á við innleiðingu laga um opinber fjármál.

Frú forseti. Vinstri græn standa fyrir frelsi, frelsi til að mennta sig, njóta heilbrigðisþjónustu og eiga sömu tækifæri í stað þess að vera einvörðungu spyrt við hagsmuni sem bornir eru á markaðstorg. Við viljum ekki að frelsi snúist um að samfélagslegar eignir eins og bankar séu færðir í hendur fárra og gróðinn einkavæddur og tapið ríkisvætt. Vinstri græn leggja áherslu á velferðarsamfélag sem byggir á jöfnuði, manngildi og sanngjörnu skattkerfi. Til að svo megi verða þurfa þeir sem hæstu launin hafa að greiða meira til samfélagsins en þeir sem minna hafa, en ekki eins og nú þegar auðmenn geta gengið að því vísu að hægri ríkisstjórnin haldi yfir þeim hlífiskildi.

Það verður að segjast eins og er að það plagg sem við fjöllum um í dag, þetta fimm ára plan hægri ríkisstjórnarinnar, er óásættanlegt. Því hlýtur að verða mikilvægasta verkefni okkar, ásamt þjóðinni, að koma þessari ríkisstjórn frá völdum.