146. löggjafarþing — 57. fundur,  6. apr. 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[23:11]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Eins gott að ég fór ekki í upptalninguna sem hv. þm. Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir fór í. En ég hef eilítið aðra sýn í þetta skiptið.

Nú er í annað sinn reynt að framfylgja lögum um opinber fjármál. Í annað sinn er það undir óvenjulegum kringumstæðum. Lítill tími fór í vinnu við fjármálastefnuna sem fjármálaáætlun á að byggja á. Fjármálaáætlun byggir því ekki á sama bakgrunni og hún ætti að gera með tilliti til þinglegrar meðferðar, þeirrar dýptar í umræðu sem við ættum að ná í löngu ferli og því um líku.

Við erum komin skammt á leið í innleiðingu laga um opinber fjárlög og eigum eftir að átta okkur á því að umræðan um fjármálaáætlunina á að vera sambærileg við umræðuna um fjárlög eins og hún var áður. Til þess að sú umræða gangi eðlilega fyrir sig og sé eins nákvæm og hún þarf að vera þarf áætlunin að koma fram fyrr, helst í upphafi árs, eða á vorþingi. Rétt eins og fjárlög eru lögð fram í upphafi haustþings.

Forsætisráðherra kom í ræðu sinni fyrr í dag að vinnulagi um lög um opinber fjármál. Hv. þingmenn sem fóru í andsvör við ráðherra höfðu áhyggjur af stjórnarskrárskipuðum skyldum þingsins, að fara með fjármál hins opinbera. Áhyggjurnar snúast um að of margar ákvarðana fjárveitinga eigi sér stað hjá ráðherra án aðkomu þingsins. Áður var hver einasti fjárlagaliður undir í afgreiðslu fjárlaga. Nú er ákvarðanavald þingsins bundið við málefnasvið og málefnaflokka. Ekki er gert ráð fyrir frekari sundurliðun í lögum um opinber fjármál.

En miðað við stjórnarskrána verður málið ekki skilið á annan hátt en að þingið hafi allt um allar fjárheimildir að segja. Munurinn á fyrra og núverandi fyrirkomulagi er að þingmenn geta ekki greitt atkvæði um einstaka fjárheimildir, ekki um fjárheimildir til einstakra framhaldsskóla t.d. eða heilsugæslu eða því um líkt eins og þeir gerðu áður.

Í afgreiðslu fjárlaga síðastliðinn desember vissu þingmenn t.d. ekki alveg hvernig ætti að bera sig að við að skila inn breytingartillögum. Nú er ég, eins og ég veit margir aðrir þingmenn, enn að læra á þetta nýja ferli. Hvaða þýðingu hefur t.d. fjármálaáætlunin ef ráðherra segir, eins og hæstv. nýsköpunarráðherra fyrr í dag þegar hv. ráðherra var spurður út í skort á framlögum til nýsköpunar, með leyfi forseta:

„Ég hef fullan hug á því að setja þessi mál á dagskrá og mun gera það. Ég bendi á að þessi fjármálaáætlun er auðvitað ekki fjárlögin.“

Vandamálið við svona málflutning er að ef slíkar breytingar verða sem hæstv. ráðherra boðar þarf að ræða forsendur málefnasviðsins alveg upp á nýtt, ekki bara forgangsröðunina innan sviðsins. Aukinn peningur í málefnasviðið þýðir aðra forgangsröðun en birtist okkur í þessari áætlun. En þetta er einmitt það sem vantar í þetta ferli, sem ég er að læra betur á eftir því sem líður á. Það er nefnilega svo að við byggjum ekki á reynslu þegar kemur að þinglegri meðferð á lögum um opinber fjármál. Við erum að læra þetta allt saman og upp á nýtt.

Því ætla ég að leggja til ákveðna hugmynd um hvernig þetta ferli ætti að vera miðað við það sem ég hef lært um þetta mál. Til að byrja með er það fjármálastefnan. Hún þarf að innihalda allt sem er tilgreint. Eins og hún er núna vantar ýmislegt í hana en það þarf að vera allt þar. Og það er algerlega nauðsynlegt að þar komi fram hugmynd um forgangsröðun málefnasviða fyrir þau ár sem stefnan nær til. Til dæmis gæti það verið eitthvað á þessa leið: Á fyrri hluta tímabilsins verður lögð sérstök áhersla á uppbyggingu þjónustusviðs heilbrigðiskerfisins og á síðari hluta þess verður áherslan í staðinn á að byggja upp innviði háskólastigsins. Bara almennar hugmyndir um forgangsröðun þannig að þegar fjármálaáætlun kemur fram sjái maður: Já, það var sagt í stefnunni að forgangsraðað yrði í heilbrigðiskerfið og það er hæsta hækkunin sem sést milli ára í áætluninni, allt í lagi. Fjármálaáætlunin birtir síðan nákvæmar tölur um málefnasviðin eins og við fjöllum um þau núna. Þá sjáum við einmitt forgangsröðun fjármálastefnunnar endurspeglast. Að auki birtir fjármálaáætlun helstu verkefni málefnasviðanna. Umræðan verður þá að snúast um hvort upphæð málefnasviðsins dugi fyrir þeim verkefnum sem gert er ráð fyrir, að málefnasviðið haldist innan þeirra vikmarka í fjárlögum. Alveg eins og við ræðum forgangsröðun málefnasviðanna í stefnunni ræðum við forgangsröðun verkefna og málefnaflokkanna í fjármálaáætlun, þ.e. við erum með nákvæma útfærslu á málefnasviðum og almennar hugmyndir um forgangsröðun málefnaflokka.

Að lokum komum við að fjárlögum. Þar á umræðan að snúast um þau verkefni sem voru sett fram í fjármálaáætlun og hvernig þau raðast á þá málaflokka, þá nákvæm útfærsla á upphæðum, forgangsröðun málefnaflokkanna eins og hún var sett fram í stefnunni.

Hins vegar, og hér er mikilvæga atriðið, ef framlög til málefnasviða breytast tilfinnanlega tel ég að leggja þurfi fram breytingar á gildandi fjármálaáætlun. Ástæðan fyrir því er að þá þarf nýja umsögn fjármálaráðs um áhrif þess á grunngildin og því um líkt.

En helsta spurningin er í rauninni innan fjárlaganna: Hvernig á þingið að hafa áhrif á forgangsröðunina og veita fjármagn í verkefni sem eru ekki sett fram í fjárlögum? Fjármálastefna, fjármálaáætlun og fjárlög koma nefnilega til þingsins á þann hátt að það er í raun aðeins kynning á því hvernig ráðuneytin vilja hafa niðurstöðuna. Þingið sér ekki verkefnin sem ráðuneytin höfnuðu eða hvernig þau forgangsraða ákveðnum verkefnum neðarlega, nægilega neðarlega til að þau birtust ekki í fjárlögum. Augljóslega verður þingið að fá að sjá öll gögn málsins og útskýringar á því af hverju eitt úrræði var valið fram yfir annað. Einungis þannig getur þingið valið sér hvaða verkefni bætast við ef fjármunum er forgangsraðað á annan hátt innan málefnaflokksins eða hvaða verkefni detta út á móti.

Breytingartillögur ættu því helst að vera fyrst í fjármálaáætluninni ef breyta á umfangi málefnasviðsins tilfinnanlega, svo í fjárlögum ef breyta á umfangi málefnaflokka þar sem nánar er tilgreint í greinargerðinni hvernig forgangsröðun innan þeirra á að vera. Sem sagt: Ekki breyta upphæðum málefnasviða í fjárlögum, ef breytingarnar eru háar, án þess að breyta fjármálaáætlun.

Þetta ferli styður grunngildin um festu, gagnsæi og stöðugleika og heldur okkur frá því vinnulagi að það sé ekki bara hægt að redda forgangsröðun og nýjum verkefnum í fjárlögum.

Að lokum myndi ég vilja endurtaka umsögn mína um þessa fjármálaáætlun. Það kemur skýrt fram að fjármálaáætlunin snýst um skuldaniðurgreiðslu. Allt annað mætir í raun afgangi. Þar er sérstaklega tekið fram að allar einskiptistekjur fari í niðurgreiðslu skulda, annað sé afgangur. Forgangsröðun afgangsins er hlutfallslega almennur varasjóður, það er mest bætt þar í, eðlilega kannski því að hann byrjar á núlli, síðan eru lyf, lækningavörur og heilbrigðisþjónusta utan sjúkrahúsa, vinnumarkaður og atvinnuleysi, örorka og málefni fatlaðs fólks. Neðst á forgangslista ríkisstjórnarinnar eru svo málefnasvið eins og rannsóknir og nýsköpun, orkumál, umhverfismál og skólastigin öll.

Fjármálaáætlun skuldaniðurgreiðslu þar sem annað mætir afgangi, allt einskiptistekjur, tilfallandi fjármagn er notað í niðurgreiðslu skulda. Ég man ekki eftir því kosningaloforði en ég man hins vegar eftir ýmsum loforðum sem mæta afgangi.

Nú langar mig að minnast á svokallaðan forgang í heilbrigðismálum sem hefur oft verið talað um. Það stendur í fjármálaáætlun að aukningin sé 16 milljarðar á fimm ára tímabili en að frádregnum framlögum til byggingar nýs Landspítala nemi raunaukningin 9% yfir tímabilið. Ef tekið er tillit til allra hinna málefnasviðanna sem ná yfir heilbrigðisþjónustuna, heilbrigðisþjónustu utan sjúkrahúsa, lyf og lækningavörur o.fl., er það 17% hækkun yfir fimm ára tímabil. Það er sama hlutfallshækkun og á fimm ára tímabilum áranna 2004–2008. Það er forgangsröðunin, í raun það sama og við höfum alltaf gert, fyrir utan þegar hrunið skall á, af þeim gögnum sem ég hef.

Ég sé þetta ekki sem forgangsröðun heldur sem það sama og venjulega. Þetta verður áhugavert.