146. löggjafarþing — 57. fundur,  6. apr. 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[23:21]
Horfa

Njáll Trausti Friðbertsson (S):

Hæstv. forseti. Það er rétt að nefna það, fyrst minnst var á það í kvöld, að ég get fullvissað þingheim um að formaður fjárlaganefndar fylgdist mjög vel með umræðunni í kvöld og er enn að fylgjast með henni; hann þurfti því miður bara að vera annars staðar.

Það eru ákveðin tímamót við framlagningu fjármálaáætlunar 2018–2022. Þetta er fyrsta fjármálaáætlunin sem segja má að sé unnin frá grunni samkvæmt nýjum lögum um opinber fjármál. Þetta er líka fyrsta fjármálaáætlunin sem lögð er fram eftir afnám hafta. Afleiðingin af haftalosuninni er að sönnu ekki öll komin fram. Við erum á miklu hagvaxtarskeiði, á þensluskeiði. Ein af forsendum fjármálaáætlunar er áframhaldandi hagvaxtarskeið, það lengsta sem við höfum þekkt.

Fjárfesting og útflutningur leiða hagvöxtinn. Öflugur hagvöxtur var á síðasta ári, 7,2%. Það sem er sögulegt er að ekki er gert ráð fyrir sjokki eða kröftugu bakslagi í forsendum áætlunarinnar. Í fjármálastefnu og í þeirri fjármálaáætlun sem við fjöllum um hér er leitast eftir mjúkri lendingu íslensks efnahagslífs. Ytri staða þjóðarbúsins er sterk. Við eigum meiri eignir erlendis en við skuldum. Kaupmáttur hér á landi hefur á síðustu misserum aukist með sögulegum hætti. Atvinnuleysi er hverfandi og atvinnuþátttaka hefur aldrei mælst meiri. Langtímaatvinnuleysi er næstum horfið. Fyrir nokkrum misserum vorum við farin að gera ráð fyrir að langtímaatvinnuleysi festi sig í sessi. Sú umræða hefur sem betur fer ekki ræst.

Helstu áskoranir lúta að peninga- og gengismálum, vinnumarkaði, þróun kjaramála, þróun á húsnæðismarkaði, ferðaþjónustu og öldrun þjóðarinnar. Slíkar aðstæður skapa líka spennu í hagkerfinu. Þetta eru allt jákvæðir þættir sem bæði gleðilegt og ánægjulegt er að fást við. Glíma fjármálaáætlunar er því ekki einföld, að fást við vandasama hagstjórn. Á sama tíma að vinna niður uppsafnaða uppbyggingarþörf margra þeirra þátt sem hafa þurft að láta undan á síðustu árum. Glíma fjármálaáætlunar er líka við þá staðreynd að ríkissjóður greiðir háar vaxtagreiðslur auk þess sem skuldaniðurgreiðsla er forgangsatriði. Það setur skorður fyrir því að ekki er hægt að ganga hraðar fram í mörgum þáttum þar sem kallað er eftir uppbyggingu og auknum framlögum til rekstrar.

Þegar rýnt er í fjármálaáætlun er ljóst að eins og mál standa nú mun í lok hennar skapast mikið svigrúm í ríkisfjármálum. Að lokinni þeirri framkvæmd hefur samkvæmt fjármálastefnu og fjármálaáætlun farið saman að fjárhæðin til lækkunar skulda og greiðslu á vöxtum lækkar og gríðarmikið svigrúm skapast til að stokka upp marga þætti í samfélagi okkar. Þótt ekki sé tímabært að ræða í löngu máli um hvað við getum gert eftir gildistíma þessarar áætlunar er samt ljóst að sú staða felur í sér mikil tækifæri. Samt er það svo að gangi allt eftir sem spáð er mun Alþingi á næstu misserum horfa fram á þá stöðu að losna mun um tugi milljarða króna. Á þeim grunni tel ég að heildarendurskoðun á skattstofnum og hvernig skattkerfinu er beitt til hagstjórnar og tekjujöfnunar komi til endurskoðunar. Þá ekki síst hvernig hagstjórnin undirbyggir enn frekar jafnari stöðu byggðarlaga, að rekstur og efling þjónustu hins opinbera á landsbyggðinni verði til að efla og vera til kjölfestu byggða.

Ég vil vekja sérstaka athygli á öðrum skuldum ríkissjóðs, sem eru lífeyrisskuldbindingar. Helsta beina skuldbinding ríkissjóðs felst í lífeyrisskuldbindingum. Í stefnunni kemur fram að ófjármagnaðar lífeyrisskuldbindingar eru um 600 milljarðar. Gert er ráð fyrir að greiða fimm milljarða árlega inn á skuldbindingar árin 2017–2022. Þar til viðbótar verði metið hvort óreglulegum tekjum verði varið til að greiða hraðar niður skuldbindingar. Þótt slík stefna sé mikilvæg er enn verðmætara að takist að stemma stigu við hækkun þeirra til næstu ára.

Í meirihlutaáliti fjárlaganefndar um fjármálastefnuna var fjallað um nauðsyn þess að ráðast í framkvæmdir í samgöngukerfinu, í höfnum, flugvöllum og öðrum samgönguverkefnum. Ég get upplýst að ég hefði viljað sjá tekið á samgöngumálum þjóðarinnar á metnaðarfyllri hátt. Já, það er nú þannig að sú samgönguáætlun sem samþykkt var um miðjan október er ekki að fullu fjármögnuð í þessari fjármálaáætlun. En ég vil líka vekja athygli á því að áætlunin gerir ráð fyrir að fjármagn í málaflokkinn verði ríflega 20 milljarðar til viðbótar fyrri áætlun þar sem fest sé í sessi sú aukning sem fjárlög sem samþykkt voru í desember felur í sér. Þýðir það að gefist hafi verið upp fyrir því verkefni að ná meiri fjármunum til að laga hafnir, flugvelli og vegi? Nei. Ég vil ítreka þá skoðun mína að við getum og eigum að leyfa okkur að hugsa um nýjar leiðir við fjármögnun framkvæmda. Fjármálaáætlunin felur í sér mörg mikilvæg verkefni sem ráðast þarf í. Hér skal minnst á kaup á þremur björgunarþyrlum. Það er stór áfangi fyrir okkur sem þjóð að geta ráðist í kaup á þremur nýjum þyrlum.

Ég vil meina að hér séu töluverð tímamót á Alþingi. Ætlun fjárlaganefndar er að virkja allar málefnanefndir þingsins í rýnivinnu á fjármálaáætlun. Fjárlaganefnd mun væntanlega, á fundi sínum á morgun að lokinni þessari umræðu, vísa málinu til fagnefnda þingsins að fjalla um einstök málefnasvið. Hver nefnd fær því til umfjöllunar stefnu, markmið og aðgerðir til umsagnar á sínu sviði. Málaflokkar skarast að einhverju leyti á milli nefnda. Við því verður reynt að bregðast. Ferlið núna í vor er mótunarferli. Með þessu verða allar nefndir þingsins fjárlaganefndir. Þær munu fá ráðherra til viðræðna og gefa fjárlaganefnd álit sitt og rekja ábendingar um breytingar ef talið er þurfa. Fjárlaganefnd mun nú í vor gefa landshlutasamtökum sveitarfélaga, en sveitarfélögin gegna lykilhlutverki í opinberum fjármálum, færi á að koma til nefndarinnar með umsagnir. Fjárlaganefnd lítur svo á að ekki sé á nokkurn hátt verið að þrengja að eða minnka almennt aðkomu að mótun ríkisrekstrarins.

Eitt af markmiðunum með lögum um opinber fjármál er að tryggja heildstæða stefnumörkun í opinberum fjármálum. Í því skyni hefur framsetningu frumvarps til fjárlaga verið breytt í þá veru að það grundvallast á fimm ára stefnumörkun í ríkisfjármálum sem síðan er fylgt eftir með árlegri fimm ára ríkisfjármálaáætlun. Fjárlagafrumvarpið grundvallast á fjármálaáætluninni og er markmiðið með fyrrgreindu verklagi að auðvelda Alþingi að meta stefnu ríkisstjórnarinnar í ríkisfjármálum í efnahagslegu samhengi. Einnig verði auðveldara fyrir Alþingi að meta stefnu ríkisstjórnarinnar, eins og hún er sett fram, eftir málefnasviðum og síðan málaflokkum. Ætlunin er að auka áhersluna á almenna, pólitíska stefnumótun en leggja minni áherslu á umfjöllun Alþingis um rekstur og starfsemi ríkisstofnana eða smærri ráðstafanir í ríkisfjármálum. Öflugra eftirlit Alþingis — hingað til hefur það að jafnaði verið fjármálaráðherra sem hefur gert fjárlaganefnd Alþingis grein fyrir framkvæmd fjárlaga. En þær skyldur hafa nú í auknum mæli verið lagðar á einstaka ráðherra með vísan til ábyrgðar þeirra. Er sú áhersla í samræmi við það markmið að styrkja eiginlegt fjárstjórnarvald Alþingis og eftirlit þess með framkvæmd fjárlaga. Með beinni og reglulegri skýrslugjöf allra ráðherra til fjárlaganefndar, sem er sú nefnd þingsins sem fer með fjárstjórnarmálefni, er tryggt að Alþingi hafi aukið færi á að fylgjast með framkvæmd fjárlaga eins og þau þróast innan fjárlagaársins til að glöggva sig bæði fyrr og betur á þeim þáttum sem hafa áhrif á fjárstjórnarstefnuna til lengri tíma.

Að mati þess sem hér stendur er eftirlit Alþingis ein af grunnstoðum laganna. Mun fjárlaganefnd annast það fyrir hönd Alþingis. Í því sambandi er rétt að benda á að ekki er eðlilegt að ráðuneytin, stofnanir þeirra og fjárlagaliðir, annist ein eftirlit með sjálfum sér. Nauðsynlegt er að ytri aðili, í þessu tilfelli Alþingi, veiti stjórnvöldum aðhald og krefjist skýringa á bæði hagstæðum og óhagfelldum frávikum, úrbóta þegar úrbóta er þörf, bestu gæða og annars sem ætlast verður til af Alþingi.