146. löggjafarþing — 57. fundur,  6. apr. 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[23:30]
Horfa

Silja Dögg Gunnarsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Senn lýkur 1. umr. um fjármálaáætlun næstu fimm ára. Við höfum í þessari umræðu mörg hver talað um hversu mikilvægt þetta mál sé, sem það svo sannarlega er. Þá verð ég að segja að ég hefði kosið í ljósi mikilvægis þess að hæstv. fjármálaráðherra hefði verið viðstaddur hér í allan dag og fylgst vel með, sömuleiðis hæstv. forsætisráðherra. Hv. þm. Njáll Trausti Friðbertsson útskýrði fjarveru hv. þm. Haraldar Benediktssonar, formanns fjárlaganefndar, en ég var farin að undra mig á henni ef satt skal segja. Við vitum líka að hæstv. utanríkisráðherra og hæstv. dómsmálaráðherra hafa ekki heldur getað verið með okkur í dag. Þetta er ekki nógu gott. Ég verð að gagnrýna þetta vegna þess að við erum að vinna samkvæmt nýju verklagi, nýrri aðferðafræði um opinber fjármál. Það verklag gerir þá kröfu á okkur öll að við vinnum saman, að allir ráðherrar taki þátt í umræðunni og að allar nefndir vinni sína vinnu út frá þessu. Mér finnst það bara alls ekki ganga að vera svo ekki viðstödd þegar umræðan á sér stað í þingsal. Á sama tíma erum við að gera þetta í fyrsta sinn og ég vil leyfa fólki að njóta vafans, en næst verður þetta að vera betra. Hið sama gildir um framsetninguna á fjármálaáætluninni, hún er á vissan hátt gagnrýnisverð.

Nokkrir hafa nefnt það hér í dag, og þetta er vinsamleg gagnrýni, að þegar maður fer yfir markmiðatöflurnar þá eru kostnaðardálkarnir alltaf tómir. Ég tel að það sé meðal annars vegna tímaskorts þannig að ég geri ráð fyrir því að þessu verði kippt í lag á næsta ári. Eins og ég hef áður sagt finnst mér þetta spennandi tæki til að vinna með, þessi hugsun stefnumótunar og langtímasýnar á fjármál ríkisins. Mér finnst þetta mjög ábyrg leið til að auka agann í ríkisfjármálum og halda vel á spöðunum út frá hagstjórnarsjónarmiðum. Ég velti fyrir mér þessum fimm ára tímamörkum sem við erum að miða við núna; við ættum alla vega að hugsa það til lengri tíma, þegar við verðum búin að æfa okkur í nokkur skipti, hvort ekki væri rétt að lengja þann tíma, við erum að tala um langtímaáætlun, fimm ár eru ekkert ofboðslega langur tími þegar maður er að vinna í stefnumótun.

Þessi umræða hér í dag hefur verið afskaplega skemmtileg. Það er skemmtilegt form á þingstörfunum að þingmenn geti komið í stuttar ræður, fengið strax viðbrögð frá ráðherrum og farið svo aftur, mjög skemmtilegt form. En ég velti því samt fyrir mér líka hvort við ættum ekki að ganga langra. Mér fannst umræðan í gær með hæstv. fjármálaráðherra í raun dýpri og betri. Hún var samt sem áður skipulögð á þann hátt að það voru í mesta lagi einn til tveir úr hverjum flokki sem fóru þá í umræðuna þannig að hún varð mjög yfirveguð og vel skipulögð, við náðum ákveðinni dýpt þar. Ég segi fyrir mitt leyti að umræðan í dag hafi á kostnað skemmtilegheitanna verið nett yfirborðskennd. Við höfðum ekki nægilega mikinn tíma til að fara aðeins dýpra í hlutina, ég held að við hefðum öll gott af því, bæði ráðherrar og þingmenn, að ná því.

Mig langar til að tæpa örstutt á nokkrum málefnasviðum sem hafa verið til umfjöllunar í dag, sem ég hef enn áhyggjur af. Mér fannst við því miður ekki fá niðurstöðu í nokkuð mörg mál þó að umræðan hafi verið skemmtileg. Ég nefni umhverfismálin sem dæmi. Í þau fer ekki nægilega mikið fjármagn þrátt fyrir þann tæpa milljarð sem verið er að bæta við núna, sérstaklega í ljósi þess að nú þegar eru fjöldamörg verkefni komin af stað í ráðuneytinu, stór og viðamikil og mjög mikilvæg verkefni, og fleiri verkefni eru á dagskrá. Ég hef áhyggjur af þessu.

Annað sem mig langar til að nefna er kaflinn sem snýr að almanna- og réttaröryggi. Til stendur að kaupa nýjar þyrlur, sem ég fagna að sjálfsögðu, fyrir Landhelgisgæsluna. En í fjármálaáætlun kemur fram að ekki sé hægt að bæta gæslu varðskipa á hafsvæðum. Á bls. 177 segir, með leyfi forseta:

„Til þess að stytta viðbragðstíma niður í 24 klst. þarf að fjölga skipum í notkun og áhöfnum en ekki er svigrúm til þess í fjármálaáætlun 2018–2022.“

Það væri ágætt ef hæstv. ráðherra gæti komið inn á þetta á eftir ef hann hefur tíma til.

Annað varðar þessa sérútbúnu flugvél sem Landhelgisgæslan hefur til umráða, en hún hefur verið að sinna verkefnum erlendis til að fjármagna viðhald og eftirlit með þyrlum og flugvélum o.fl. Á bls. 178 segir, með leyfi forseta:

„Það verður því áskorun fyrir stofnunina á næstu árum að halda uppi viðunandi þjónustustigi við eftirlit, leit og björgun.“ — en þau verkefni sem flugvélin hefur sinnt erlendis í nokkur ár munu líklega ekki verða til staðar.

Ég verð að spyrja: Hvað þýðir þetta? Mun Landhelgisgæslan ekki geta sinnt lögbundnum verkefnum miðað við fyrirliggjandi fjármálaáætlun? Mér fannst ég ekki fá svör við því í dag í umræðunni.

Annað varðar fangelsismálin. Ég kom inn á þau í dag og fékk engin svör. Það er vissulega talsverð aukning á þessu málefnasviði, en þar er víða pottur brotinn. Ekki er gerð sérstök grein fyrir þessu í þingskjalinu, ekki þannig að það sé konkret. Talað var um samfélagsþjónustu og rafrænt eftirlit og alls konar sem ætti að létta á, en þegar maður skoðar töfluna um biðtíma í afplánun þá hefur sá tími lengst verulega ár frá ári. Þegar maður skoðar kaflann um dómstólana er málum sífellt að fjölga og þróunin er bara upp á við þannig að hún hlýtur að halda áfram upp á við. Maður veltir fyrir sér stöðunni hvað þetta varðar, þá bæði gagnvart dómstólum og í fangelsismálunum. Þetta tvennt helst kannski svolítið í hendur en er augljóslega ekki í nógu miklum fókus í fjármálaáætluninni.

Heilbrigðismálin — við Framsóknarmenn höfum gagnrýnt gríðarlega aðhaldskröfu sem fylgir þessari fjármálaáætlun, en hún er aðeins 0,5% í heilbrigðismál sem er ágætt. En auðvitað hefur maður áhyggjur af því að þessi aukning sem fer til heilbrigðismála virðist fyrst og fremst fara í byggingu nýs Landspítala, sem ég er ánægð með að sé að fara að rísa, þó að ég hefði viljað fá hann annars staðar en við Hringbraut, en úr þessu er bara gott að fá þennan Landspítala. Mér fannst ég ekki fá nógu góðar skýringar varðandi áframhald uppbyggingar heilsugæslunnar sem við erum öll sammála um að sé alger grunnur í heilbrigðiskerfinu okkar en þar þurfa að vera sterkar stoðir, við þurfum að geta treyst á heilsugæsluna um land allt. Ég hef einnig áhyggjur af fjármögnun hjúkrunarrýma — hv. þm. Guðjón Brjánsson fór mjög vandlega yfir þá hluti í ræðu sinni hér áðan — og sjúkrahúsþjónustunni um land allt sem á víða undir högg að sækja.

Er tími minn að verða búinn, hæstv. forseti?

(Forseti (NicM): Já.)

— Ja hérna, þetta líður.

Þá þarf ég að fara að ljúka máli mínu. Ég ætlaði að koma inn á menntamálin. Framhaldsskólarnir eru náttúrlega illilega skildir eftir úti í kuldanum. Hið sama gildir um háskólana. Ég ætlaði að lesa hér ályktun sem Stúdentaráð Háskóla Íslands um ríkisfjármálaáætlun sendi frá sér, hún er mjög harðorð og gagnrýnin á fyrirliggjandi fjármálaáætlun. Ég tek undir þá ályktun háskólans. Listaháskólinn — við erum margoft búin að ræða hann í þessum sal. Ég get ekki séð að brugðist sé við hans stöðu í þessari fjármálaáætlun.

Niðurstaða mín er sú að það sé fullt af fallegum markmiðum í þessu þingskjali, alls konar töflum og fíneríi, en aðhaldið sé allt of mikið. Aðhaldskrafa upp á 2% í flestum málaflokkum er allt of mikið. (Forseti hringir.) Við Framsóknarmenn hefðum viljað fara aðrar leiðir. Við hefðum viljað taka upp nýja skatta og minnka aðhaldið til að geta byggt upp nauðsynlega innviði.