146. löggjafarþing — 57. fundur,  6. apr. 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[23:41]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Óttarr Proppé) (Bf):

Frú forseti. Það líður að lokum langrar umræðu, tveggja daga umræðu, um fimm ára fjármálaáætlun. Þó að okkur sem hér erum í þingsal þyki umræðan orðin ærið löng þá er hún auðvitað ekki löng í því samhengi að hér er verið að útfæra línur í fjármálum ríkisins til fimm ára. Þetta er í fyrsta skipti sem ný ríkisstjórn leggur fram áætlun af þessu tagi þar sem línurnar eru lagðar í fjármálum út kjörtímabil.

Ný lög um opinber fjármál eru stórkostleg breyting í opinberum rekstri. Það að við höfum sett okkur reglur og lög um að skylt sé að gera áætlanir fimm ár fram í tímann — þar sem þjóðhagsspá fram í tímann er metin, staðan sem líklegust er í efnahagsumhverfinu, líklegasta staðan í tekjuáætlun og í þróun á hinum ýmsu útgjaldasviðum — er agi sem okkur Íslendinga hefur sárlega skort í gegnum árum. Ef það er eitthvað sem við höfum öll lært aftur og aftur, við sem höfum fylgst með íslensku samfélagi eða bara búið í því, þá er það þessi sorglega vangeta til að horfa til lengri tíma. Kannski er það að einhverju leyti vegna þess að íslensk þjóð er alin upp við íslenskt veður, við að sækja sjóinn og búa í harðbýlu landi, en sú hugsun að þetta „reddist einhvern veginn“, og að hægt sé að bjarga heyjum inn áður en fer að rigna, hefur einkennt íslenska efnahagsstjórn allt of mikið og hefur aftur og aftur sett af stað alls konar veislur þar sem við höfum glaðst og hlaupið fagnandi út en komið sneypt til baka þegar ekki árar jafn vel eða áföll dynja yfir. Og aftur og aftur segja allir: Ekki átti ég von á þessu.

Mig langaði áður en lengra er haldið að fagna því að verið sé að innleiða ný vinnubrögð. Þau eru ekki mér að þakka, þau eru ekki þessari ríkisstjórn að þakka, þau eru ekki einu sinni þessu þingi að þakka. Það er sameiginlegt átak íslenskrar pólitíkur að taka upp betri vinnubrögð og ég fagna því að fá að vinna við þau. Ég sagði á dögunum við samstarfsmenn mína í velferðarráðuneytinu í gríni en samt ekki að 11. janúar væri sennilega versti tími á árinu til að stofna til nýrrar ríkisstjórnar, sérstaklega í ljósi nýrra laga um opinber fjármál, vegna þess að vinna og undirbúningur við fimm ára fjármálaáætlun og þetta plan á að vera langt komið 11. janúar. Þess utan ætti áætlunin að byggjast á tiltölulega nýsamþykktum fjárlögum sem sama ríkisstjórn hefði staðið fyrir í lok ársins á undan. Það hefur eftir sem áður verið stórkostlegt að vera þátttakandi í þeirri vinnu að undirbúa þessa fjármálaáætlun, ekki bara í pólitíkinni heldur ekki síður með embættismönnum í Stjórnarráðinu, með embættismönnum fjármála- og efnahagsráðuneytisins og sömuleiðis embættismönnum, hagfræðingum og sérfræðingum í öllum fagráðuneytunum, í stofnunum fagráðuneyta. Gríðarlega mikil vinna hefur verið unnin langt fram á nótt í ráðuneytum um allan bæ og í stofnunum um allt land. Það er sú vinna sem er grunnurinn að þessari fjármálaáætlun.

Það er mikill misskilningur að við ráðherrar ríkisstjórnarinnar höfum setið einhvers staðar og skrifað þetta allt saman upp því að í grunninn eru opinber fjármál mjög fastur heimur. Meiri hluti opinberra útgjalda eru nokkuð föst stærð. Það eru áherslur og það er forgangsröðun sem kemur fram og hún er pólitísk. Og pólitísk forgangsröðun þessarar ríkisstjórnar kemur skýrt fram í þessari fjármálaáætlun, ekki bara að hér sé miðað við að styðja við efnahagslegan stöðugleika, að vinna með aðhaldi gegn þensluárunum núna, heldur líka að byggja upp til framtíðar með virkri lækkun opinberra skulda o.s.frv., heldur líka sterk forgangsröðun í því hvaða málaflokkar njóta forgangs umfram aðra; forgangsröðun í þágu heilbrigðismála og annarra velferðarmála er áberandi í þessari fjármálaáætlun. Það breytir því ekki að stór hluti útgjalda í öllum málaflokkum er nokkuð gefinn, þ.e. við rekum áfram þá þjónustu sem er fyrir hendi og reynum að bæta hana eins og hægt er og með forgangsröðun.

Góðu fréttirnar eru þær að þegar Alþingi kom saman á síðustu vikum síðasta árs, áður en ríkisstjórn hafði verið mynduð, þá áraði það vel að hægt var að bæta vel í útgjöld fyrir árið 2017. Það hefur komið fram í umræðunni að útgjöld á fjárlögum 2017 aukast um 8,5% yfir línuna frá árinu á undan og þegar kemur að mínum hæst-elskaða málaflokki, heilbrigðismálunum, um rétt tæp 10% á milli ára. Það sem eru kannski stóru fréttirnar í fjármálaáætluninni, þrátt fyrir nauðsyn á auknu aðhaldi vegna þenslu og sem svar við þensluástandi í íslensku efnahagslífi, er að það tekst að verja þessa miklu aukningu árið 2017 og bæta í þó svo að vissulega hefði maður viljað sjá viðbótina fyrsta árið vera meiri. Við vitum öll að verkefnin eru ærin. Þau eru mjög mikilvæg. Auðvitað vill maður alltaf gera betur.

Ég tel að í þessari fjármálaáætlun sé mjög vandlega fetaður meðalvegurinn á milli ábyrgrar efnahagsstjórnar og langtímahugsunar, en sömuleiðis að staðinn sé vörður um mikilvægustu þjónustuna, um velferðarmálin, um heilbrigðismálin og uppbyggingu innviða; þó að sú uppbygging mætti vera hraðari þá er hún skýr og sterk. Ég get ekki klárað þessa ræðu öðruvísi en að fagna því að okkur takist að halda inni og halda dampi í uppbyggingu á nýjum Landspítala. Ég get ekki hætt að tala um hve mikilvægt það verkefni er, hve lengi það er búið að bíða og hvað það háir íslensku heilbrigðiskerfi, ekki bara hvað varðar getu til þjónustu heldur líka getu okkar til að skipuleggja heilbrigðisþjónustuna og búa heilbrigðisstarfsfólki sómasamlegt og gott starfsumhverfi, sem er bæði gott fyrir starfið en sömuleiðis algjörlega nauðsynlegt fyrir nýliðun hvað varðar mönnun heilbrigðiskerfisins.

Íslendingar eru ekki eina þjóðin í heiminum sem á í vandræðum með væntingar til heilbrigðiskerfisins, væntingar til heilbrigðisútgjalda, væntingar til mönnunar í heilbrigðiskerfi. Íslendingar eru ekki eina þjóðin sem er að eldast, þar sem öldruðum fjölgar og væntingar til betri þjónustu og betri lífsskilyrða vaxa hraðar en getan til að auka útgjöld. En við sjáum stöðuga aukningu út fjármálatímabilið í heilbrigðisþjónustu og ég fagna því sérstaklega.

Ég sé að tími minn er að verða búinn. Ég hafði lofað hæstv. forseta að ég myndi ekki nota allan tímann til að stytta kvöldið, en ég vil þakka fyrir mjög skemmtilega umræðu. Ég tek undir það með öðrum hv. þingmönnum að þetta fyrirkomulag, sem tókst að koma á í sátt, þar sem voru lengri umræður í gær en styttri umræður og snarpara samtal við fagráðherra í dag, hefur verið mjög gagnlegt og ég held að við eigum að taka okkur það til fyrirmyndar.