146. löggjafarþing — 58. fundur,  24. apr. 2017.

orð heilbrigðisráðherra um einkavæðingu í heilbrigðisþjónustu.

[15:07]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Sá liður sem er að hefjast hér, óundirbúinn fyrirspurnartími, fyrirspurnir til ráðherra, er jú ætlaður til þess að fá skýr svör frá ráðherrum, bæði til að liðka fyrir málum og til að skýra afstöðu hér í þinginu. Því vekur það nokkra furðu að 23. mars sl. fékk hæstv. heilbrigðisráðherra fjórar spurningar sem snerust um starfsemi Klíníkurinnar, sem hann svaraði öllum með þeim hætti að í það minnsta allur þingheimur skildi svörin þannig að ekki stæði til að breyta einu eða neinu í því fyrirkomulagi sem væri í dag og að ekkert yrði um þessa starfsemi, fimm daga innlagnir, að ræða. Hæstv. ráðherra sagði: Það er ekki í farvatninu svo ég viti, án þess að vera með stórkostlegar skoðanir á því hvernig stefnumótun ætti að vera á því sviði.

Ég verð að segja alveg eins og er að hæstv. ráðherra greindi okkur ekki nægilega skýrt frá. Hann hefur nú komið fram í fjölmiðlum og sagt að þetta sé ekkert á hans valdi. (Forseti hringir.) Af hverju notaði hann ekki eitthvað af þessum svörum sínum til að upplýsa þingið um hver staðan væri í stað þess að leiða okkur á villigötur? Hér var einu sinni tónelskur þingmaður, oft í gulum fötum, sem talaði mikið um heiðarleika í stjórnmálum, samstarf og samvinnu og minna fúsk. Hvar er hann nú?