146. löggjafarþing — 58. fundur,  24. apr. 2017.

orð heilbrigðisráðherra um einkavæðingu í heilbrigðisþjónustu.

[15:19]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Frú forseti. Það var akkúrat það sem ég ætlaði að segja. Mér finnst ágreiningurinn allt of mikill um þá yfirlýsingu sem landlæknir kemur inn á í bréfi sínu, til þess að málið sé ekki tekið fyrir hér innan þingsins, þ.e. hvort það sé embættisins að staðfesta að faglegar lágmarkskröfur séu uppfylltar og svo ráðherrans að veita starfsleyfi til sérhæfðrar heilbrigðisþjónustu þegar slík staðfesting liggur fyrir eða hvort það sé eins og ráðherra túlkar það, að það sé landlæknis að veita starfsleyfið. Gefið er í skyn að landlæknir hafi veitt leyfið í janúar. Velferðarnefnd verður að fá fólk á sinn fund. Þetta mál verður að útkljá í eitt skipti fyrir öll. Við getum ekki verið með lög í landinu sem eru þannig að ráðherra og embættismaður sem á að sjá um þessa hluti fyrir okkar hönd, þ.e. almennings í landinu, túlki lögin með jafn ólíkum hætti (Forseti hringir.) og raunin er. Það er algerlega óásættanlegt.