146. löggjafarþing — 58. fundur,  24. apr. 2017.

orð heilbrigðisráðherra um einkavæðingu í heilbrigðisþjónustu.

[15:21]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Frú forseti. Nú standa öll spjót á rokkbóndanum Óttari Proppé heilbrigðisráðherra. Hann verður að koma hingað suður, ég hlustaði á hann á Aldrei fór ég suður og hann var ágætur þar, (Gripið fram í: … persónur.) en hæstv. ráðherra ætti að sjá sóma sinn gagnvart Alþingi og vera hér og svara fyrir það af hverju málin eru þannig komin að hann er búinn að neita því að hann veiti leyfi fyrir einkareknu sjúkrahúsi í Ármúlanum þar sem er fimm daga innlögn og hefðbundin sjúkrahúsþjónusta. Svo kemur á daginn að landlæknir óskar eftir því að það sé skýrt hvar leyfisveitingin liggur fyrir starfsleyfi. Hvar er sú leyfisveiting?

Með þessu er verið að koma á tvöföldu heilbrigðiskerfi þar sem fjármagn úr ríkiskassanum rennur óheft út í einkageirann. (Forseti hringir.) Okkur vantar fjármagn í heilbrigðiskerfið og við gerum þá kröfu (Forseti hringir.) til hæstv. heilbrigðisráðherra að hann komi hingað og geri grein fyrir þessum málum og axli ábyrgð.