146. löggjafarþing — 58. fundur,  24. apr. 2017.

orð heilbrigðisráðherra um einkavæðingu í heilbrigðisþjónustu.

[15:27]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég er ekki að kvarta undan fjarvist heilbrigðisráðherra. Ég er að kvarta undan því sem hann sagði. Heilbrigðisráðherra segir að það sé landlæknis að veita Klíníkinni starfsleyfi. Landlæknir segir að samkvæmt lögum, fyrst það var tekið upp, þurfi leyfi ráðherra þegar um er að ræða sérhæfða heilbrigðisþjónustu. Embætti landlæknis hefur staðfest að Klíníkin uppfylli lágmarkskröfur sérhæfðrar sjúkrahúsþjónustu og segir eftirfarandi:

„Embætti landlæknis hefur staðfest að fyrirhugaður rekstur á Klíníkinni uppfyllir faglegar lágmarkskröfur embættis landlæknis.

Embætti landlæknis veitir ekki leyfi til rekstrar heilbrigðisþjónustu.“

Þarna stangast á orð hæstv. heilbrigðisráðherra og embættis landlæknis. Um það snýst þessi deila. Orð heilbrigðisráðherra virðast ekki standast rýni.