146. löggjafarþing — 58. fundur,  24. apr. 2017.

orð heilbrigðisráðherra um einkavæðingu í heilbrigðisþjónustu.

[15:28]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Það var sérstaklega um það rætt þegar þessi ríkisstjórn var sett á laggirnar að heilbrigðismálin yrðu í forgangi. Þau yrðu þungamiðjan á verkefnalista þessarar nýju ríkisstjórnar. Nú er að koma á daginn að þegar rætt er um fimm ára áætlun fjármála og útgjalda íslenska ríkisins er ekki hægt að hlusta á Landspítalann á fundi velferðarnefndar. Málflutningur ráðherra heilbrigðismála er afvegaleiðandi og óljós. Áherslur er varða skiptingu opinberrar þjónustu og einkaþjónustu eru óskýrar, hvernig heilbrigðismálin eru afgreidd í ríkisfjármálaáætlun með því að fela skort á uppbyggingu í rekstri með byggingum. Allt ber að sama brunni og snýst um (Forseti hringir.) að það er í raun og veru tóm þvæla að halda því fram að þessi ríkisstjórn leggi áherslu á heilbrigðismál vegna þess að það gerir hún ekki. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)