146. löggjafarþing — 58. fundur,  24. apr. 2017.

orð heilbrigðisráðherra um einkavæðingu í heilbrigðisþjónustu.

[15:33]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Frú forseti. Mér finnst það mikilvægt, sem kom hér fram, að hv. formaður velferðarnefndar hafi óskað eftir því að Landspítalinn komi á fund velferðarnefndar til að ræða ríkisfjármálaáætlun. Það er hins vegar alveg með ólíkindum að annars vegar þurfi að kalla stíft eftir því í nefnd, vegna þess að ekki hafi verið gert ráð fyrir því í upphaflegu vinnunni um þingmálið að svoleiðis yrði það, og hins vegar þurfi rimmu um fundarstjórn forseta til að ræða þessi mál. Það er til háborinnar skammar að svona sé staðið að þessu mikilvæga máli þó að það sé gott ef við náum að endingu góðri niðurstöðu í málið. Þetta hlýtur að vera okkur öllum til umhugsunar um það hver raunveruleg staða hins opinbera velferðarkerfis á Íslandi er þegar það þarf einhvern veginn að reyna að túlka orð hæstv. ráðherra. Hann getur ekki komið með skýr svör í pontu (Forseti hringir.) og það þarf að kalla eftir því að Landspítalinn fái að koma á fund nefnda til að ræða málin. Þetta segir okkur eitthvað um það í hvaða stöðu við erum.