146. löggjafarþing — 58. fundur,  24. apr. 2017.

orð heilbrigðisráðherra um einkavæðingu í heilbrigðisþjónustu.

[15:38]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Frú forseti. Ég sé mig knúna til að koma aftur upp vegna þess hroka sem kom fram í ummælum hv. þm. Brynjars Níelssonar um svona grafalvarlegt mál. Ég held að ekkert okkar hér inni hafi reiknað með að það lagaumhverfi sem við búum við leyfði að það hægt sé að starta einkasjúkrahúsum með legudeild sisvona án þess að bera það undir þingið eða nein umræða fari fram úti í þjóðfélaginu, í heilbrigðisstofnunum eða á þeim vettvangi sem við á. Ég held að það hafi ekki hvarflað að neinu okkar að lagaumhverfið væri með þeim hætti og ég efast um að það sé rétt. Þess vegna tek ég undir það sem landlæknir hefur kallað eftir varðandi þessa leyfisveitingu, að þegar verið er að veita leyfi fyrir því að beina fjármagni út úr opinbera heilbrigðiskerfinu yfir í einkarekið heilbrigðiskerfi þá sé það skýrt að það þurfi einhverjar (Forseti hringir.) lagaheimildir til þess á einhverju stjórnsýslustigi. (Forseti hringir.) Við getum ekki horft upp á þetta, sama hvað sumir hv. þingmenn tala niður til okkar hinna í þessu máli.