146. löggjafarþing — 58. fundur,  24. apr. 2017.

stefna í heilbrigðismálum.

[15:43]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Benedikt Jóhannesson) (V):

Frú forseti. Ég vil byrja á því að segja gleðilegt sumar. Það er gaman að heyra þá frísklegu vorvinda sem blása um þennan sal. Hv. þingmaður setur margvíslegar spurningar fram og ég skal reyna að svara þeim eftir bestu getu. Kannski í fyrsta lagi að segja það að árið 2008, þegar lög um sjúkratryggingar voru sett, sat ég ekki á þingi og átti ekki hlut í því að setja þau lög. Ég sat hins vegar þá í stjórn Sjúkratrygginga Íslands. Hugmyndin með Sjúkratryggingum er sú að þar sé kaupandi búinn til; þar sem við höfum bæði kaupanda og seljanda sem eru sami aðili, þ.e. ríkið, er verið að reyna að búa til annan aðila sem er kaupandi sem er Sjúkratryggingar. Hugsunin var líka sú að þá yrðu settir fram ákveðnir staðlar þannig að ákveðin fjárhæð yrði greidd fyrir ákveðin verk.

Ég verð að játa að ég er ekki til þess bær, í þessari deilu landlæknis og heilbrigðisráðuneytisins, að skera úr um það hvað er hið rétta í málunum. Ég veit hins vegar að Sjúkratryggingar hafa borgað margvíslega starfsemi einkalækna, einkarekinna læknastöðva, að hluta til á móti sjúklingum. Ég veit ekki annað en mjög margir sjúklingar hafi fengið góðan bata þar. Þetta hefur stytt biðlista. Ég tel að það sé jákvætt fyrir sjúklinga.