146. löggjafarþing — 58. fundur,  24. apr. 2017.

stytting atvinnuleysisbótatímabilsins.

[15:52]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Ég þakka svarið. Það kemur fram að hæstv. ráðherra Þorsteinn Víglundsson segir að atvinnulausir fái aukna aðstoð við að komast út á vinnumarkaðinn. Ráðherrann segir jafnframt, með leyfi forseta:

„Á sama tíma verður lögð áhersla á það að finna úrræði fyrir atvinnuleitendur. Í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar segir um þetta: „Markmiðið er að veita einstaklingsmiðaða þjónustu við fólk í atvinnuleit fyrr en verið hefur en til þess þarf að fjölga ráðgjöfum hjá Vinnumálastofnun sem liðsinna og aðstoða fólk í atvinnuleit eins fljótt og kostur er.““

Því langar mig að spyrja hæstv. ráðherra eftirfarandi:

Hvernig er þessari auknu aðstoð háttað nákvæmlega? Er búið að tryggja að t.d. þeir aðilar sem ekki hafa haft atvinnu um nokkra hríð eigi kost á að sækja vinnu í sínu byggðarlagi? Ráðherranum má vera ljóst að kostnaður við að stytta bótatímabilið mun rúlla yfir á sveitarfélögin og með því að þurfa sækja um aðstoð hjá sveitarfélögunum skerðast verulega möguleikar á að hafa sambærilega framfærslu þar sem ljóst er (Forseti hringir.) að reglur um framfærsluaðstoð eru miklu þrengri þar en hjá Vinnumálastofnun.

Þá er vert að hafa í huga að þeir sem hafa (Forseti hringir.) misst vinnu sína hafa áunnið sér þessi réttindi.