146. löggjafarþing — 58. fundur,  24. apr. 2017.

húsnæðismál.

[16:03]
Horfa

félags- og jafnréttismálaráðherra (Þorsteinn Víglundsson) (V):

Frú forseti. Ég ætla að vona að röddin endist þetta. Ég þakka þingmanni þessa fyrirspurn, þótt ég velti fyrir mér hvort hún hefði jafnvel átt að fara til hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra. En það er annað mál.

Spurt er: Má vænta þess að ríkið haldi áfram að selja lóðir á hagstæðu verði? Nú hefur reyndar ekkert verið kveðið upp úr um það hversu mikil kjarakaup þetta eru. Auðvitað er klárt að ríkið á hlutdeild í væntu lóðaverði á þessu landi þegar það hefur verið skipulagt og byggt. Ríkissjóður mun væntanlega hafa af því umtalsverðar tekjur. Hvort þetta fyrirkomulag verði einhvers konar líkan að frekari sölu á ríkiseignum eða lóðum er ekki mitt að segja til um. Hins vegar er alveg ljóst að ríkið getur komið þarna talsvert inn til að létta á þeim mikla skorti sem er á fasteignamarkaði í dag með því að leggja til jarðir sem eru í eigu ríkissjóðs á höfuðborgarsvæðinu, jarðir sem auðvelt er að skipuleggja og þétta byggð í kringum. Það held ég að sé vafalítið afar mikilvægt enda vitum við að hátt lóðaverð ýtir undir háan byggingarkostnað og aukið framboð af lóðum á hagstæðu verði getur skipt miklu máli í að halda byggingarkostnaði og eignaverði niðri. Ég held því að það sé afar brýnt að ríkið losi um þær eignir sem það getur í þessum tilgangi, þó svo að ríkið eigi alltaf að gæta þess líka að sækja hagstætt og gott verð fyrir ríkissjóð til að nýta til niðurgreiðslu á skuldum.

Til að svara þeirri fyrirspurn er alveg ljóst að ég vænti þess að það verði ein af þeim tillögum sem við munum leggja til, að áfram verði unnið að því að losa jarðeignir ríkissjóðs í þeim sveitarfélögum þar sem það er mögulegt og það á auðvitað helst við hér á höfuðborgarsvæðinu.