146. löggjafarþing — 58. fundur,  24. apr. 2017.

gagnsæi fjármálaáætlunar.

[16:10]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Benedikt Jóhannesson) (V):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Það er vissulega áhugavert viðfangsefni að huga að, ekki bara fjármálaáætluninni í heild heldur einstökum liðum hennar, málefnasviðunum. Mér heyrist hv. þingmaður vera að útvíkka svolítið ábendingu fjármálaráðs um sviðsmyndir þannig að ekki séu bara sviðsmyndir fyrir heildarefnahagslífið heldur líka fyrir hvert málefnasvið. Ég get alveg tekið undir með hv. þingmanni að það væri vissulega áhugavert að velta vöngum yfir því. Ég held að það væri nýjung í fjárlagagerðinni. Ég held að í fjárlagagerð séu yfirleitt ekki sett fram fjárlög fyrir hvert málefnasvið með ákveðinni fjárhæð og segja hvað 10, 100 eða 1.000 milljónir til viðbótar myndu gera. Vissulega væri áhugavert að sjá helstu áhrif í því.

Ég þakka hv. þingmanni fyrir ábendinguna. Mér finnst þetta eiginlega ganga skrefinu lengra en fjármálaráð gerir þegar það bendir á að við hefðum átt að setja fram sviðsmyndir. Ég hef sagt að það væri vissulega æskilegt en við höfum bara ekki enn verið með tækin til að setja slíkar myndir upp. Þetta þyrfti enn meiri vinnu en ég er ekki þar með að segja að sú vinna væri óskynsamleg.