146. löggjafarþing — 58. fundur,  24. apr. 2017.

gagnsæi fjármálaáætlunar.

[16:12]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ein af ástæðum þess að við erum að taka upp lög um opinber fjármál er að færa fjármálaumræðuna meira inn í fjármálaáætlunina fyrr á árinu. Fjármálaáætlunin á að vera grunnurinn að fjárlögunum sjálfum og þá á ekki að koma okkur sérstaklega á óvart þegar skiptingin í fjárlögunum birtist. Við eigum að búast við að lagt sé meira eða minna í ýmsa málefnaflokka undir málefnasviðunum sem er einmitt ekki gert í núverandi fjármálaáætlun.

Ef við erum ekki búin undir það, ef við vitum ekki við hverju er að búast í fjárlögunum eftir því sem er sagt í fjármálaáætlun, þurfum við að taka umræðuna alveg upp á nýtt og þá erum við að tala tvisvar sinnum um sama málefnið. Það er það sem ég er að benda á, við þurfum að vita hvaða verkefni almennt séð, þetta er ekkert flokkað niður á einstök verkefni, hvaða stóru verkefni eiga að klárast, hvaða verkefni taka við, hver grunnrekstrarramminn er og (Forseti hringir.) hvaða verkefni komast ekki inn á listann þannig að við vissum hvaða verkefnum við værum að bæta við ef við legðum aukapening í málefnasviðið.