146. löggjafarþing — 58. fundur,  24. apr. 2017.

kennaraskortur í samfélaginu.

[16:30]
Horfa

Pawel Bartoszek (V):

Virðulegi forseti. Ég ætla að halda áfram þar sem hæstv. menntamálaráðherra sleppti orðinu og ræða um lengd kennaranámsins. Kennaranámið var lengt á Íslandi úr þremur árum í fimm fyrir nokkrum árum. Markmiðið var vitanlega að auka menntun kennara, sem er mjög gott markmið. En ef afleiðingar verða þær að fækkun verður í náminu er ekki víst að það takmark náist.

Upplýsingar um lengd og fyrirkomulag kennaranáms í mörgum Evrópuríkjum má finna í upplýsingum á heimasíðu Eurydice-netsins, en það heldur utan um slíkar upplýsingar fyrir þau lönd sem taka þátt í Erasmus+-verkefninu. Næstum öll þátttökulöndin krefjast þriggja til fimm ára háskólanáms, t.d. sýnist mér þrjú ár duga í Belgíu og Póllandi, en reyndar er langalgengast að þeir sem þar vinna hafi meistaragráðu. Hjá Finnum og Frökkum er kennaranámið fimm ár, en fjögurra ára kennaranám eru alls ekki óalgengt. Þannig er það t.d. í Danmörku, Svíþjóð og Noregi samkvæmt Eurydice.

Við verðum að hafa í huga að á þeim tíma sem við höfum verið með fimm ára réttindanám er Ísland það ríki innan OECD þar sem nýútskrifaðir kennarar eru hvað elstir vegna þess hversu langt nám til stúdentsprófs er hér. Nú hefur nám til stúdentsprófs verið stytt og ég vona og er bjartsýnn á að það gæti haft jákvæð áhrif á þann þátt.

Ef við berum saman tölur frá 2009 hefur nemendum í HÍ fækkað um 1.500 almennt en nemum í kennaradeildinni hefur fækkað um 600, sem er allt of mikið. Ég er ekki að segja að ég sé með töfraformúluna en kannski gætum við horft til nokkurra landa í kringum okkur þar sem menn fá afmörkuð réttindi inn á ákveðið svið menntageirans eftir þrjú til fjögur ár en síðan veitir fimm ára nám miklu víðtækari réttindi.

Það er hugmynd, ekki hugmynd að uppgjöf heldur hugmynd að því að hið upprunalega markmið um bætta menntun íslenskra kennara náist.