146. löggjafarþing — 58. fundur,  24. apr. 2017.

kennaraskortur í samfélaginu.

[16:32]
Horfa

Elsa Lára Arnardóttir (F):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka málshefjanda fyrir þessa mjög mikilvægu umræðu. Þetta sem við ræðum hér er mjög alvarleg staða sem blasir við í kennaramálum okkar Íslendinga.

Kennaramenntun er mjög góð menntun, alhliða menntun. Margir sem hafa menntað sig í þeim greinum hafa átt auðvelt með að fá vinnu víða. Eins og fram hefur komið í ræðum hv. þingmanna er staðan líka sú að mjög stór hluti þeirra sem mennta sig í kennaranámi hafa vinnu annars staðar.

Við sjáum breytingar eftir lengingu kennaranámsins. Núna sjáum við skort. Ég tel að þessi lenging á kennaranáminu hafi ekki verið nægilega vel ígrunduð, hvaða afleiðingar hún hefði þótt menntunin sjálf sé afar jákvæð. Síðan held ég að aðrir þættir spili inn í, sveigjanleikinn í starfinu er minni en áður. Það er aukið ytra áreiti, á mörgum stöðum ekki mikil tækifæri og mörg tæki fyrir grunnskólakennara, m.a. til að sækja sér aðstoð ef eitthvað er. Við þurfum ekki að fara mörgum orðum um launakjörin, þau eru of lág. Það er aukið álag, oft erfiðar ytri aðstæður, vinnuaðstaðan mætti víða vera mun betri. Við höfum séð að sífellt stærri hluti námsins fer fram í gegnum gagnvirkar námsleiðir og þar höfum við oft séð að t.d. tölvubúnaður í grunnskólum hefur ekki fylgt þeim kröfum sem námskráin segir til um.

Ég vil nota síðustu mínútuna hér og segja: Það er mjög mikilvægt að eiga samtal við þá sem starfa í greininni um allar þær breytingar og ákvarðanir sem eiga sér stað.