146. löggjafarþing — 58. fundur,  24. apr. 2017.

kennaraskortur í samfélaginu.

[16:41]
Horfa

Valgerður Gunnarsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Ég þakka bæði málshefjanda og hæstv. menntamálaráðherra fyrir innlegg þeirra í þessa þörfu umræðu. Ég vil sérstaklega þakka hæstv. menntamálaráðherra fyrir það sem hann dregur fram og það sem fram undan er varðandi kennaramenntun.

Það er alveg ljóst að í farvatninu er að endurskoða lög um menntun og ráðningu kennara og skólastjórnenda. Það er mjög mikilvægt í þeim breytta heimi sem við lifum í núna. Kennarastarfið er margfalt, ég vil bara segja erfiðara og fjölbreyttara en það var fyrir sirka 50 árum. Það er veruleiki sem undirbúningur fyrir þetta starf þarf að vera með í þegar verið er að skipuleggja kennaramenntun.

Ég vil líka minnast á að þegar farið var í það að lengja kennaranám í fimm ár, það skipti miklu máli. Af því að það skiptir miklu máli að þeir sem ala upp börnin okkar og sjá um að koma þeim til manns og mennta hafi góðan grunn og góðan undirbúning. En ég tel að það sem gerðist þegar námið var lengt var að launaþátturinn fylgdi ekki með, það svaraði ekki kostnaði að bæta við tveimur árum, leggja út tíma, fjármagn og vinnu og það skilaði sér ekki til kennarans. Eitt af því sem verður að taka til endurskoðunar er launaþáttur í starfi kennarans.

Ýmislegt hefur auðvitað komið hér fram og væri hægt að tala um þetta miklu lengur, en ég hvet hæstv. menntamálaráðherra til að sinna þessum þætti vel og gera veg kennarans og starfsins, sem er svo mikilvægt, sem mestan.