146. löggjafarþing — 58. fundur,  24. apr. 2017.

kennarskortur í samfélaginu.

[16:48]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu. Hún er mjög mikilvæg eins og hefur komið fram hjá öllum samþingmönnum mínum sem hafa tekið þátt í umræðunni. Ég vil líka þakka ráðherranum fyrir að gera góða tilraun til þess að svara öllum þeim spurningum sem liggja hér fyrir.

Í öllum þeim greiningum sem ég hef séð um framtíðarstörfin, hvort sem um er að ræða spár sænsku vinnumálastofnunarinnar eða þeirrar bandarísku, má finna kennarastarfið á öllum skólastigum. Niðurstaða þeirra sérfræðinga er að skólar munu þróast og þeir munu breytast með nýrri tækni og nýjum kennsluaðferðum, en ekkert bendi til annars en að góðir kennarar verði áfram mikilvæg auðlind fyrir hverja þjóð. Því er sú staða sem við horfum fram á og Ríkisendurskoðun bendir á um yfirvofandi kennaraskort hér á landi verulegt áhyggjuefni.

Við höfum rætt í þessari umræðu um hver geti verið ástæðan og hvernig við eigum að leysa þetta. Ég get tekið undir fjölmargt af því sem hér hefur komið fram. Er lausnin að hækka laun og bæta starfsaðstöðu? Það voru ábendingar talsmanna kennara að það væri eitt lykilatriði til þess að tryggja að við gætum fjölgað kennurum. Hér hefur líka verið talað um hvort það hafi verið mistök á sínum tíma að lengja kennaranámið. Eigum við að stytta það aftur, er það rétta leiðin, er það lausnin?

Ég vil hins vegar að lokum nefna eitt atriði sem hefur ekki komið fram í umræðunni, en það snýr að kynjaskiptingu vinnumarkaðarins. Konur eru í meiri hluta þeirra sem sinna kennslu og hlutfallið hefur aukist á undanförnum árum. Mér hefur fundist vera mjög áberandi umræða, ekki bara hér á Íslandi heldur í öðrum löndum líka, um skort í starfsstéttum þar sem aðeins er verið að sækja í helming (Forseti hringir.) þjóðar þegar það er fyrst og fremst annað kynið sem sinnir þessum verkefnum. Það er eitt af því sem ég myndi vilja beina til ráðherrans, hvernig sé hægt að jafna kynjahlutföllin og tryggja að kennarastarfið sé áhugavert bæði fyrir karla og konur.