146. löggjafarþing — 58. fundur,  24. apr. 2017.

kennaraskortur í samfélaginu.

[16:53]
Horfa

Guðjón S. Brjánsson (Sf):

Virðulegur forseti. Ég þakka fyrir umræðuna. Eins og fram kom hjá hv. þm. Oddnýju Harðardóttur hefur þegar verið lögð fram tillaga til þingsályktunar um aðgerðir gegn kennaraskorti. Það er mikið í húfi. Þetta er alvörumál og við verðum að grípa til aðgerða. Hugtökin virðing, stolt og fagmennska leita á huga minn. Hluti umræðunnar snýst um launakjör kennara og flest bendir til að kjör þeirra beri vott um takmarkaða virðingu yfirvalda fyrir mikilvægi kennara, eða hvernig ber að skilja öðruvísi þá þróun sem átt hefur sér stað? Virðing er grunnþáttur í gefandi samskiptum og undirtónninn í því að móta réttlát samfélög, hvort sem þau eru stór eða smá, heimili, skóli, vinnustaður, ríki eða samfélög þjóðar. Þetta er hvorki meira né minna en hin göfuga jafnaðarstefna í hnotskurn.

Kennarastarfið er því einstakt starf og skiptir gríðarlega miklu máli í lífi barna og unglinga. Við felum kennaranum umsjá og mótun okkar dýrustu sprota, barnanna, í sífellt fleiri stundir sólarhringsins, allt frá leikskólaaldri fram eftir mikilvægu mótunartímabili unglingsáranna. Hvers vegna er virðingin fyrir þessu starfi ekki sýnilegri í raun? Í þessu erum við eftirbátar flestra nágrannaþjóða okkar og örugglega þegar um laun er að ræða. Á sama tíma gerum við jafnvel enn meiri kröfur til kennara og þegar eitthvað fer úrskeiðis í skólanum standa öll spjót á þeim.

Það stefnir í óefni í skólastarfi vegna kennaraskorts. Ríkisendurskoðun áréttar í nýrri skýrslu að stjórnvöld hafi ekki hugað nægilega vel að dvínandi aðsókn í kennaranám og þeirri alvarlegu hættu á kennaraskorti sem að steðjar.

Við þurfum að snúa taflinu við sameiginlega, með kennurum, með foreldrum. Kennarar eru ásamt foreldrum lykilpersónur í daglegu lífi barna og unglinga, (Forseti hringir.) þeirra sem taka munu við keflinu. Kennarar eru lykilpersónur í því að efla sjálfsvirðingu þeirra og hæfni til að sýna öðrum virðingu, að miðla, (Forseti hringir.) kenna, fræða og mennta, leita þekkingar. Þetta snýst um hvernig okkur sem þjóð mun reiða af meðal þjóða í framtíðinni.