146. löggjafarþing — 58. fundur,  24. apr. 2017.

húsnæðismál.

[17:16]
Horfa

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni og hæstv. ráðherra fyrir þessa mikilvægu umræðu. Ungt fólk í dag er ekki í öfundsverðri stöðu að koma sér á húsnæðismarkaðinn, en lengi hefur verið erfitt að eignast sitt eigið húsnæði og vandamálið er ekki aðeins unga fólksins. Vandamálið er líka eldra fólksins sem komið er á þann stað að þurfa að minnka við sig. Eftirspurnin eftir minna húsnæði er gífurleg á meðan framboðið er nær ekkert. Vandamál dagsins í dag bitnar því á öllum kynslóðum og er fyrst og fremst vandamál höfuðborgarsvæðisins og þá aðallega Reykjavíkur. Og að borgarstjórn leyfi sér að skapa svo mikinn framboðsvanda er ólíðandi.

Frekari ríkisstyrkir, miðstýringarleiðir og önnur afskipti hins opinbera af húsnæðismarkaðnum, eru ekki líkleg til árangurs. Það hefur sýnt sig. Ég vona að hæstv. félags- og jafnréttismálaráðherra átti sig á því. Af því að afskipti ríkisins af fasteignamarkaði, t.d. í formi flókins regluverks, umfangsmikilla gjaldheimta og lóðaskorts, bitna ekki aðeins á ungu fólki heldur öllum kynslóðum. Með einfaldara regluverki og minni gjaldtöku getum við þó stigið stór skref í átt að því að auðvelda fólki að eignast húsnæði við hæfi. Fasteignamarkaðurinn þarf að vera mun sveigjanlegri en hann er í dag. Ég hef reynt að leggja mitt af mörkum og hef lagt fram frumvarp um að afnema stimpilgjald vegna kaupa einstaklinga á íbúðarhúsnæði. Markmiðið þar er auðvitað að reyna að auðvelda fólki að afla sér íbúðarhúsnæðis og auka skilvirkni og flæði á markaði með það. Stimpilgjald hefur nefnilega líka áhrif til hækkunar fasteignaverðs, dregur úr framboði og rýrir hlut kaupenda og seljenda. Það verður því fróðlegt að fá að heyra frá hæstv. ráðherra hvort hann sé fylgjandi slíkum skattalækkunum á einstaklinga sem jafnframt aðstoðar fólk við að kaupa eigin íbúð.

Virðulegi forseti. Við þekkjum vandamáli, en við þurfum að horfa á lausnina. Sem fyrr leysum við ekki vandann með auknum ríkisútgjöldum, miðstýringu eða frekari ríkisafskiptum. Þegar kemur að húsnæðismálum hefur hið opinbera hingað til verið vandamálið. Ég hvet ráðherra til allra góðra verka til að skapa umhverfi þar sem þeim sem vilja gefst raunhæfur kostur á að eignast sitt eigið húsnæði og þar sem virkur leigumarkaður fær þrifist. Til þess þurfum við að vinna skipulega að því að einfalda regluverkið, minnka gjaldtöku, en umfram allt að hætta að trúa þeirri mýtu að við getum með auknum ríkisumsvifum auðveldað öllum lífið, því að það er alls ekki raunin.