146. löggjafarþing — 58. fundur,  24. apr. 2017.

húsnæðismál.

[17:22]
Horfa

Guðjón S. Brjánsson (Sf):

Forseti. Ég vil þakka málshefjanda fyrir það að hefja þessa umræðu sem er brýn. Hún snertir þúsundir Íslendinga. Um þessar mundir rennur fram eitt kröftugasta hagvaxtarskeið lýðveldisins. Við eigum ungt og vel menntað og öflugt fólk í flestum starfsgreinum sem vill leggja hönd á plóg. Atvinnuleysi er hverfandi. Samt erum við búin að koma ár okkar þannig fyrir borð að hundruð eða ótölulegur fjöldi einstaklinga og fjölskyldna, allt of margir, fær ekki varanlegt húsaskjól, samastað til að búa, eignast ekki öruggt heimili. Börnin þurfa í mörgum tilvikum að hrekjast á milli skólahverfa eða jafnvel bæjarfélaga af þessum ástæðum og þetta hefur áhrif. Ungt fólk í fullu starfi sem pínir sig á uppsprengdum leigumarkaði og stendur í skilum kemur að lokuðum dyrum hjá lánastofnunum þrátt fyrir að eiga hnökralausa greiðslusögu og gæti létt fjárhagsbyrði sína með því að eigast tryggt húsnæði. Sumir velja sér því fyrir vikið jafnvel samastað í öðrum löndum og lái þeim hver sem vill.

Peningahyggjan leikur lausum hala. Íhaldið er samt við sig. Sjálfstæðismenn hvetja til þess að ungu fólki sé beitt á sína nánustu og falist eftir arfinum fyrir fram. Þetta þykir gott og gilt í þeirra kreðsum og verði þeim að góðu. Eru þetta virkilega úrræðin, frú forseti?

Við jafnaðarmenn hugsum fyrst til þeirra sem ekki hafa þennan aðgang að peningum, eiga ekki ríka foreldra, berjast á eigin forsendum. Það eiga allir að hafa sömu tækifærin, ekki bara sumir. Við eigum að skapa þær aðstæður að allir geti búið við varanlegt húsnæðisöryggi en ekki vera á valdi markaðar sem nærist á hreinu okri.

Þær hugmyndir sem uppi hafa verið duga ekki til lausnar. Á það höfum við jafnaðarmenn bent og viljum gera betur. Ef við horfum til sögunnar þá höfum við staðið fyrir stórfelldum umbótum í húsnæðismálum og þá var jafnvel örbirgð í þessu landi. Það þarf sjónarmið jafnaðarmanna til að bæta hag almennings í þessu eins og öðru. Hvað er það sem tefur nú? (Forseti hringir.) Hverjir sitja við stjórnvölinn? Hverjir ylja sér við kjötkatlana? Það eru ekki jafnaðarmenn.