146. löggjafarþing — 58. fundur,  24. apr. 2017.

sálfræðiþjónusta í framhaldsskólum.

276. mál
[17:55]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrirspurnina og ítreka að stefna mín, þar sem spurt er hver sé stefna ráðherra í innleiðingu á sálfræðiþjónustu í framhaldsskólum, er afdráttarlaus sú sem byggir í öllum meginatriðum á stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar þar sem segir m.a. eftirfarandi í kafla um heilbrigðismál, með leyfi forseta:

„Staða heilsugæslunnar sem fyrsta viðkomustaðar sjúklinga verður styrkt. Aðgengi að geðheilbrigðisþjónustu verður aukið, m.a. með sálfræðiþjónustu á heilsugæslu og í framhaldsskólum. Stuðningur verður aukinn við börn foreldra með geðvanda og sálfræðiþjónusta felld undir tryggingakerfi í áföngum.“

Ég vil einnig nefna að í aðalnámskrá framhaldsskóla sem gefin var út árið 2011 er í kafla 14.1 fjallað um velferð nemenda. Þar segir m.a., með leyfi forseta:

„Velferð nemenda tengist líkamlegu, andlegu og félagslegu heilbrigði. Innan veggja hvers skóla á að vera í boði heilnæmt fæði í samræmi við opinber manneldismarkmið og þannig stuðlað að heilbrigði nemenda skólans. Skólameistari framhaldsskóla skal hafa samráð við heilsugæslustöð í nágrenni skólans um heilsuvernd og hollustuhætti og skal tilhögun lýst í skólanámskrá.“

Ég vænti þess að geta átt gott og sem best samstarf við velferðarráðuneytið um eflingu sálfræðiþjónustu í framhaldsskólunum. Samkvæmt stefnuyfirlýsingunni hvílir meginábyrgðin á málinu hjá heilbrigðisyfirvöldum. Í því sambandi er nærtækt að horfa til þess góða samstarfs sem hefur þróast milli framhaldsskóla og heilsugæslustöðva um almenna heilsuvernd og hollustuhætti nemenda í framhaldsskólunum og full ástæða er til að ætla að innleiðing sálfræðiþjónustu í framhaldsskólunum geti í gegnum þennan farveg gengið vel fyrir sig.

Ég vil benda á undir lok míns svars að í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar fyrir árin 2018–2022 er gert ráð fyrir að efla heilsugæslu í landinu, fjölga sálfræðingum og geðheilsuteymum og styrkja þverfaglega þjónustu hennar. Þetta er nákvæmlega eftir þeirri geðheilbrigðisáætlun sem samþykkt var á síðasta kjörtímabili. Þetta var jafnframt undirstrikað í kynningu hæstv. fjármálaráðherra á áætluninni fyrir skömmu þar sem hann benti á að sálfræðiþjónusta yrði m.a. aukin í skólum landsins.

Það er mín eindregna skoðun að við eigum að fara með þennan þátt þjónustunnar í gegnum heilbrigðiskerfið, í gegnum grunnþjónustu sem heilsugæslan er, í stað þess að reyna að byggja upp einhvern tiltekinn hluta heilbrigðisþjónustunnar við landsmenn inni í einhverju allt öðru kerfi en grunnkerfinu. Vandamálin við það, ef við gerðum þetta með þeim hætti, kristallast ágætlega í því að ef nemandi flyttist á milli skóla væri óheimilt í slíku kerfi að flytja nokkrar upplýsingar um hann á milli heilsugæslustöðva eða innan þjónustukerfisins. Samfellan í þjónustunni á þessu sviði verður að vera, að minni hyggju, á forsendum heilsugæslunnar og í gegnum hana svo að við getum veitt skilvirka þjónustu af háum gæðum.