146. löggjafarþing — 58. fundur,  24. apr. 2017.

sálfræðiþjónusta í framhaldsskólum.

276. mál
[17:58]
Horfa

Bjarni Halldór Janusson (V):

Forseti. Mig langar að þakka hv. þm. Eygló Harðardóttur fyrir að koma með þessa fyrirspurn. Þetta mál er mér mjög ofarlega í huga og ég ætla að fá að koma með stutt innlegg.

Að breyttu breytanda er algengast að einstaklingur með kvíða og þunglyndi þurfi að greiða hátt í 220 þús. kr. fyrir hefðbundinn fjölda meðferðartíma. Það er ekki sjálfgefið að ungt fólk hafi svo mikið milli handanna hverju sinni. Þess vegna þarf fjöldi ungs fólks að neita sér um sálfræðiþjónustu af fjárhagsástæðum. Ein afleiðing þess er gífurlegt brottfall íslenskra framhaldsskólanema sem rekja má að mestu leyti til slæmrar geðheilsu.

Enn verri afleiðing er sú að sjálfsvígstíðni á Íslandi er með því hærra sem þekkist í heiminum. Algengasta dánarorsök íslenskra karlmanna á aldrinum 18–25 ára er sjálfsvíg. Hérlendis mælist um fimmti hver kvenmaður á þeim aldri með þunglyndiseinkenni. Það er skylda okkar hér inni að bregðast við þessum vanda sem allra, allra fyrst.