146. löggjafarþing — 58. fundur,  24. apr. 2017.

sálfræðiþjónusta í framhaldsskólum.

276. mál
[18:02]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Herra forseti. Það er rétt, þetta er þörf umræða. Ég kem úr skólakerfinu líka og þekki einmitt af eigin raun að það skiptir máli hvar þjónustuna er að hafa. Því er sú teymisvinna mikilvæg sem þarf að fara fram inni á heilsugæslustöðvum. Ég tek undir að upplýsingar um flutning og annað slíkt þurfa einhvers staðar að vera. Það þarf að breyta lögum þannig að hægt sé að fylgja fólki eftir. Þetta á líka við um barnavernd. Við þurfum líka að huga að henni. Að skólar starfi ekki bara í einhverju tómi þegar málin þurfa að fara frá þeim til barnaverndarnefnda og gengur síðan kannski hægar en ella inni í skólunum.

Ég held að það sem við stöndum frammi fyrir, hvort sem er kostnaður eða eitthvað annað, af hálfu þeirra nemenda sem þurfa að sækja sér slíka þjónustu sé að fólkið til starfans er ekkert á lausu. Það gengur ekki mjög vel að ráða fólk til starfans um hinar dreifðu byggðir. Kannski verður auðveldara að ráða fólk til starfa á heilsugæslum á höfuðborgarsvæðinu (Forseti hringir.) en ekki er víst að það sama verði hægt að segja um heilsugæslur og skóla úti á landi.