146. löggjafarþing — 58. fundur,  24. apr. 2017.

sálfræðiþjónusta í framhaldsskólum.

276. mál
[18:03]
Horfa

Þórunn Egilsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka fyrirspyrjanda fyrir þessa þörfu og góðu umræðu. Staðan sem uppi er núna er engan veginn ásættanleg, það er allt of stór hluti ungmenna okkar sem býr við það að glíma við mikla vanlíðan og veikindi. Við erum líka á þeim stað að við erum allt of oft að glíma við afleiðingar. Við förum of seint inn í málin, erum ekki búin undir þau, við höfum lítið hugað að forvörnum of lengi. Ég held að við þurfum að fara að einbeita okkur að þeim, forvörnunum, og að koma inn í málin á fyrri stigum. Ég tek undir með hv. þm. Bjarkeyju Olsen Gunnarsdóttur að það er kannski ekki svo einfalt að leysa málin um allt land. Þá getum við auðveldlega farið að leggja meiri áherslu á teymisvinnu í samvinnu við heilbrigðisstofnanir úti um allt land. Ég vona að okkur vegni vel í því og takist að bæta ástandið í þessum málum.