146. löggjafarþing — 58. fundur,  24. apr. 2017.

sálfræðiþjónusta í framhaldsskólum.

276. mál
[18:10]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Forseti. Ég þekki ekki nákvæmlega innihaldið eða áform heilbrigðisráðherra varðandi áframhaldið. Ég geri ráð fyrir að einbeittur vilji þingsins standi að baki geðheilbrigðisáætlun til næstu ára sem við samþykktum hér öll. Hún svarar flestum þeim spurningum sem hér hafa komið upp, t.d. hversu mörg stöðugildi þetta eigi að vera o.s.frv. Ætlunin er að keyra áætlunina eftir bresku módeli sem gerir ráð fyrir að á bak við hvert stöðugildi sálfræðings sé u.þ.b. 9 þúsund íbúa mengi. Það kann vel að vera að bæta þurfi við það eftir atvikum. Það er breytilegt eftir svæðum.

Ég er eindregið á því að við eigum að fylgja þeirri stefnu sem mörkuð hefur verið í geðheilbrigðismálum. Þar er gert ráð fyrir að heilsugæslan haldi utan um það. Við getum að sjálfsögðu gert það sama gagnvart framhaldsskólum og er gert er gagnvart grunnskólum. Þar er skólahjúkrun gerð út frá heilsugæslunni. Við getum þjónustað framhaldsskóla með sambærilegum hætti. Þegar menn ræða hér greiðsluþátttöku og þess háttar, að slík þjónusta sé íþyngjandi fjárhagslega fyrir framhaldsskólanemendur, bendi ég á að greiðsluþátttaka upp að 18 ára aldri er gjaldfrjáls ef hún fer í gegnum heilsugæsluna. Það bið ég fólk að hafa í huga þegar rætt er um einstaka þætti í þessum efnum.

En ég tel einboðið að þingið standi að baki heilbrigðisráðherra og velferðarráðuneytinu í að halda áfram þeirri uppbyggingu sem þingið samþykkti í geðheilbrigðisstefnu. Þar er tekið á flestum þeirra þátta sem hér hafa verið nefndir, svo sem fjarheilbrigðisþjónustu. Í það minnsta verða menn að hafa í huga að það er líka hollt að endurskoða stefnu á nýjum sviðum eins og hér um ræðir varðandi geðheilbrigðisstefnuna, eftir svona eitt til tvö ár frá því að hún var afgreidd. Það held ég að sé bara nauðsynlegt.