146. löggjafarþing — 58. fundur,  24. apr. 2017.

efling verk- og iðnnáms.

277. mál
[18:29]
Horfa

Ari Trausti Guðmundsson (Vg):

Herra forseti. Ég set spurningarmerki við sumar af þeim breytingum sem hafa orðið á iðn- og verknámi. Grunnnámið er orðið að allstórum hluta á vegum hagsmunaaðila, þ.e. Samtaka iðnaðarins sem reka iðnskóla. Það eru til opinberir verkmenntaskólar vissulega líka. Þjálfunin fer í vaxandi mæli fram á vegum fyrirtækja eða skóla en ekki undir persónulegri handleiðslu iðnmeistara. Ef efla á iðn- og verknám þarf að standa vörð um innihald námsins og þjálfunina, færnina og vandvirknina, þ.e. það sem við köllum fagmennsku. Við tryggjum hana kannski best með námi sem miðar ekki að breytilegum þörfum fyrirtækja í iðngreininni heldur lýtur að námskrá sem óháðir sérfræðingar, iðnmeistarar eða aðrir semja og svo þjálfun sem hefur bæði innra samhengi og samfellu og er undir handleiðslu fagfólks.

En það kemur fleira til. Það hefur lengi staðið til að fella úr gildi löggildingu fjölda iðngreina. Sumar eru vissulega úreltar en aðrar verða að halda stöðu sinni sem löggiltar iðngreinar (Forseti hringir.) ef þær eiga að höfða til ungs fólks. Við megum ekki gleyma því.