146. löggjafarþing — 58. fundur,  24. apr. 2017.

efling verk- og iðnnáms.

277. mál
[18:30]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég vil minnast hér aftur á Fab Lab. Þar eru kennd undirstöðuatriði stafrænnar framleiðslutækni, þrívíddarhönnun og nýjar aðferðir við verk- og iðnmenntun. Núna er Fab Lab með starfsstöðvar á sjö stöðum á landinu. Ef eitthvað er vantar fleiri. Það er t.d. ekki nema ein starfsstöð í Reykjavík fyrir allan þann fjölda sem er hérna. Auk þess eru starfsstöðvar á Akureyri og á Austurlandi, Hornafirði, Ísafirði, Sauðárkróki og Vestmannaeyjum. Þar væri kjörið tækifæri að bæta í. Þetta er ákveðið undirstöðuatriði framtíðar verk- og iðnmenntunar. Einnig gæti komið hugmynd um að gera verk- og iðnnámið alvarlegra, það lægi meira þar undir. Jafnvel með því að gera einhvers konar samræmd verkefni, kannski ekki próf en samræmd verkefni fyrir þá hluta af aðalnámskrá (Forseti hringir.) sem lúta að list- og verkgreinum. Það gefur þeim meira vægi.