146. löggjafarþing — 58. fundur,  24. apr. 2017.

efling verk- og iðnnáms.

277. mál
[18:34]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka kærlega fyrir þessa umræðu. Það er gott að finna hversu mikill áhugi er á verk- og iðnnámi hér í þingsal. Ef við tökum saman þær fyrirspurnir sem ég hef í dag beint til hæstv. menntamálaráðherra er greinilega mikill stuðningur við áform ráðherrans um sálfræðiþjónustu í framhaldsskólum og við að styrkja verk- og iðnnám, eins og lengi hefur verið talað um. Ég þarf hins vegar aðeins að vinna í ykkur varðandi heimavistir fyrir framhaldsskólanema hér á höfuðborgarsvæðinu. Ég þekki ráðherrann að því að hann vill ekki endilega hafa mörg verkefni í gangi á sama tíma. En þegar hann segir að hann ætli að leggja áherslu á ákveðin verkefni veit ég að hann mun fylgja því eftir. Þess vegna er mjög gott að hann standi hér á mánudegi og segist ætla að leggja áherslu á að byggja upp verk- og iðnnám.

Að lokum vildi ég bæta við umræðuna þeim ágætu ábendingum sem hafa komið hér fram. Ég hef heyrt sögur af því að eftir hrun, þegar við sáum byggingariðnaðinn hrynja, sátu nemendur einfaldlega og grétu inni hjá kennurunum sínum því að þeir gátu ekki lokið námi, ekki fengið nauðsynlega starfsþjálfun á vinnustöðum. Við sjáum líka aukna sérhæfingu þannig að fyrirtæki sérhæfa sig til dæmis bara í uppsteypun í byggingariðnaðinum meðan aðrir eru í innréttingum. Nemandi sem fær pláss nær einfaldlega ekki að tryggja sér þá þjálfun sem hann þarf. Ein af hugmyndunum sem hefur verið nefnd er sú hvort það ætti að vera á ábyrgð skólans að lofa nemendum sínum að þeir muni útskrifast, að það verði tryggt að þeir fái nauðsynlega þjálfun til að geta útskrifast úr námi. (Forseti hringir.)

Að lokum vil ég nefna, í ljósi þess að við erum nýlega búin að fullgilda sáttmála Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, að þarf að líka að huga að möguleikum þess þegar kemur að verk- og iðnnámi.