146. löggjafarþing — 58. fundur,  24. apr. 2017.

yfirferð kosningalaga.

140. mál
[18:42]
Horfa

dómsmálaráðherra (Sigríður Á. Andersen) (S):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni spurninguna, sem hlýtur auðvitað að standa öllum sem hér eru inni ákaflega nærri.

Vísað er til stefnuyfirlýsingar ríkisstjórnarinnar. Það er rétt að þar kemur fram að því er varðar áframhaldandi vinnu við skoðun á stjórnarskránni að henni skuli haldið áfram. Í því sambandi kemur fram að þar verði jafnhliða hugað að breytingum á kjördæmaskipaninni með hliðsjón af reynslu síðustu breytinga. Síðustu breytingar voru gerðar með stjórnarskrárbreytingu árið 1999 þegar kjördæmum var fækkað og þau stækkuð.

Stjórnarskráin var allt til ársins 1934 mjög almenn um kjördæmaskipanina og kosningafyrirkomulagið. Eftir það voru sett ítarlegri ákvæði í stjórnarskrána. Það sem átti sér stað 1999 var að stjórnarskráin var gerð örlítið sveigjanlegri og löggjöfinni falin útfærsla, t.d. um fjölda þingsæta í hverju kjördæmi að teknu tilliti til lágmarks þar að lútandi. Það er að mínu mati ágætisfyrirkomulag, þ.e. skipting stjórnarskrárinnar og síðan framsal hins almenna löggjafa um fyrirkomulag kosninga.

Það er tvennt í þessu. Þegar menn spyrja mig um meira jafnræði í vægi atkvæða þá liggur vandinn ef til vill í því kerfi sem við höfum í dag: Það byggir á ákveðnu ójafnræði atkvæða, en um leið er gert ráð fyrir að atkvæðum sé jafnað á milli flokka. Í umræðu um þessi mál hafa menn nefnt að kerfið sé ógagnsætt og flókið. Ég er ekki tilbúin til að taka undir það þótt við, leikmenn á þessu sviði, þ.e. á sviði d'Hondt-reglunnar, þurfum kannski að rifja upp á fjögurra ára fresti nákvæmlega hvernig hún virkar held ég að sé ekki sanngjarnt kerfisins og reglunnar vegna að segja að hún sé algerlega óskiljanleg eða ógagnsæ. Hún er í sjálfu sér nokkuð gagnsæ og skýr og ekki óeðlileg.

Menn velta fyrir sér hvernig sé hægt að tryggja að hver maður á landinu hafi eitt atkvæði eða að það verði að minnsta kosti jafnað eins og stjórnarskráin gerir ráð fyrir, en stjórnarskráin gerir ráð fyrir mögulegu ójafnræði í þessu, þ.e. að skiptingin geti verið þannig að einhverjir kjósendur hafi tvöfalt vægi á við aðra. Þannig er það sannarlega í dag. Í nýlegum úrskurði landskjörstjórnar eftir síðustu kosningar var að minnsta kosti staðfest að ekki væri enn ástæða til að breyta þeirri skipan sem er í dag, sem þó hefur verið gert eftir árið 1999 þegar fjölda þingmanna hefur verið breytt milli kjördæma.

Hvernig væri hægt að ná meira jafnræði? Það er í mínum huga bara þrennt sem kæmi til greina í því: Að gera landið að einu kjördæmi. Það væri í sjálfu sér einfaldast. Einnig væri hægt að fjölga kjördæmum svo mikið að jafnræði næðist, t.d. með einmenningskjördæmum. Það er annar möguleiki. Svo væri auðvitað líka hægt að hugsa sér að við hefðum bara sex kjördæmi sem væru öll nákvæmlega jafn stór þannig að kjördæmamörkunum væri hnikað til.

Almennt er rétt að hafa í huga að ef kosningafyrirkomulaginu verður breytt höfum við stjórnarskrána, einkum og sér í lagi 31. gr. hennar, og svo höfum við lög um kosningar til Alþingis auk laga um kosningar til sveitarstjórna og forsetakosningar. Það eru aðallega lög um kosningar til Alþingis sem segja fyrir um fyrirkomulag í þessu máli. Að mínu viti eru margvísleg tækifæri til þess að breyta kosningafyrirkomulaginu án þess að breyta stjórnarskránni með því að breyta lögum um kosningar til Alþingis. Fyrir liggur skýrsla til forseta Alþingis sem forseti Alþingis hefur til afgreiðslu og þingið sjálft. Að sjálfsögðu mun það koma inn á borð þingsins (Forseti hringir.) og til þinglegrar meðferðar. Það er meira að segja gerð krafa um það í stjórnarskrá að allar breytingar á kosningafyrirkomulaginu þurfi að njóta fylgis aukins meiri hluta á Alþingi (Forseti hringir.) eða tveggja þriðju þingmanna. Það er alveg ljóst að þingið hefur mikla aðkomu (Forseti hringir.) og það þarf að vera mikil sátt, breið samstaða, um breytingar á kerfinu.