146. löggjafarþing — 58. fundur,  24. apr. 2017.

greining á þensluáhrifum fjárfestinga og framkvæmda.

380. mál
[19:12]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Benedikt Jóhannesson) (V):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina. Bæði spurningin og ábending meiri hluta fjárlaganefndar eru mikilvægar og áhugaverðar. Ljóst er að uppgrip á höfuðborgarsvæðinu eru ekki endilega ávísun á þenslu á Vestfjörðum og jarðgangagerð á Vestfjörðum þurrkar ekki upp atvinnuleysi á Djúpavogi. Þá eru fjárfestingar ekki allar jafnar þegar kemur að þensluáhrifum. Þannig eru mannvirki sem reist eru af erlendu starfsfólki ekki jafn þensluhvetjandi og aðrar fjárfestingar. Þá er erlent vinnuafl notað til að draga úr spennu á markaði og þar hjálpar aðildin að Evrópska efnahagssvæðinu með frjálsu flæði fólks milli landa. Þegar björgunarþyrlur eru keyptar frá útlöndum eru þensluáhrifin hverfandi þótt krónurnar til fjárfestingar séu jafn margar.

Stutta svarið er því miður það að ráðuneytið hefur enn sem komið er ekki haft tök á að greina þá þætti sem spurt er um. Það helgast af því að slíkt er flókið en vissulega eitt þeirra verkefna sem vert er að skoða betur. Eins og áður hefur verið bent á er mjög mikilvægt að fjármálaráðuneytið hafi aðgang að efnahagslíkani til að reikna betur áhrif hinna ýmsu mögulegu sviðsmynda og gott væri að landshlutabundin áhrif spennu í efnahagslífinu væru þar á meðal.

Við undirbúning fjármálastefnu og síðar fjármálaáætlunar fyrir árin 2018–2022 voru fjárfestingaráform opinberra aðila skoðuð nokkuð, en þá er vísað bæði til ríkisins, sveitarfélaga og opinberra fyrirtækja. Samhliða því voru möguleg þensluáhrif þeirra metin. Sú greining liggur til grundvallar þeim ákvörðunum sem teknar voru við skrif þessara plagga, áætlunarinnar og stefnunnar. Þannig hafa ráðgerðar fjárfestingar ríkisfyrirtækja töluverð áhrif á hagsveifluna og rými ríkisins til fjárfestinga.

Þá er í þessu samhengi rétt að benda á að í samkomulagi ríkisins við sveitarfélögin vegna fjármálaáætlunarinnar er að finna ákvæði um að leggja þurfi mat á fjárfestingarþörf og áætlanir opinberra aðila og samhæfa til skemmri og lengri tíma. Aðferðafræðina við þetta mat sem vísað er til í samkomulaginu á enn eftir að móta og sú vinna er skammt á veg komin.

Hafin er vinna í ráðuneytinu við að styðja við gerð þjóðhagslíkans þar sem hægt verður að skoða og meta ólíkar sviðsmyndir þótt ekki verði fyrst um sinn hægt að skoða þensluáhrif eftir landshlutum. Þá er ljóst að skoða mætti hvort auka eigi samstarf við þær stofnanir sem sinna hagspárgerð, t.d. Hagstofu, með það í huga að greina betur áhrif ákvarðana á hagþróun.

Í umsögn sinni um fjármálaáætlun sem birtist fyrir helgi benti fjármálaráð á að haglíkön sem liggja til grundvallar áætlunargerðinni eru ekki nægjanlega næm, m.a. í því að taka ekki inn í myndina áhrif af áætluninni sjálfri. Það er því mikið verk fram undan að byggja umbúnað fyrir ítarlegri áætlunar- og spágerð, og mörg aðkallandi verkefni sem kalla á umbætur af hálfu fjármálaráðuneytisins og stofnana þess. Að þessu verki verður unnið á næstu mánuðum og misserum.

Varðandi þann samdrátt í framkvæmdum sem hv. þingmaður nefndi má nefna m.a. að Orkuveita Reykjavíkur hefur ákveðið að draga saman framkvæmdir á næsta ári frá því sem áður var ætlað um 8 milljarða kr. Landsvirkjun mun ljúka viðamiklum verkefnum á tímabilinu og ekki eru önnur tilgreind og eitthvað fleira mætti tiltaka þar af.