146. löggjafarþing — 58. fundur,  24. apr. 2017.

greining á þensluáhrifum fjárfestinga og framkvæmda.

380. mál
[19:18]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Það er ágætt að vita í sjálfu sér að til stendur að gera þetta þó að skammt sé á veg komið. Það er nefnilega akkúrat þannig, eins og hæstv. ráðherra sagði, fjárfestingarnar eru ekki allar jafn þensluhvetjandi. Þess vegna er mjög mikilvægt að greining fari fram. Mér finnst að það verði eiginlega að liggja fyrir tiltölulega fljótlega því að erfitt er að ætla sér að samþykkja áætlun þar sem ekki liggur fyrir með hvaða hætti fjárfestingarnar verði tímasettar, eins og kemur fram í áliti fjármálaráðs, það sé mikilvægt að þær verði tímasettar með hliðsjón af efnahagshorfum og verkefnum verði forgangsraðað þannig að það auki ekki sveiflur í hagkerfinu. Þess vegna tel ég að þetta sé eitt af forgangsverkefnunum.

Ég er líka sammála því, eins og kemur fram og hefur verið að birtast okkur í athugasemdum við fjármálaáætlunina, að við erum ekki með nógu sterk greiningartæki til að meta hvort sem það er þetta eða eitthvað annað, þ.e. þjóðhagslíkanið sem verið er að smíða. Eitthvert líkan verðum við að smíða til að geta náð utan um þetta, þ.e. skoða þensluáhrifin hvort sem það er á landsbyggðina eða hvað það er sem við erum að reyna að sækjast eftir.

Ég tel að við getum ekki haft það þannig að fjármálaáætlunin sé einhvern veginn tekin til umfjöllunar í öllum nefndum án þess að þetta liggi fyrir, að við sjáum eitthvað fram í tímann hvernig við dreifum þessum framkvæmdum. Það er mjög mikilvægt af því að við þekkjum þörfina fyrir innviðauppbygginguna.

Ég vona svo sannarlega að ráðherra geti upplýst okkur um það tiltölulega fljótlega. Eins með samdráttinn, að þessi tvö fyrirtæki sem hann nefndi og einhver fleiri eru eflaust þar á bak við líka, (Forseti hringir.) það ætti að gefa okkur tækifæri til að (Forseti hringir.) auka enn frekar á fjárfestingu í hinum dreifðu byggðum.