146. löggjafarþing — 58. fundur,  24. apr. 2017.

fjárfestingarstefna lífeyrissjóða.

446. mál
[19:26]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Benedikt Jóhannesson) (V):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina sem lýtur að siðareglum og fjárfestingarstefnu lífeyrissjóðanna. Í upphafi vil ég taka fram að ég er eindregið þeirrar skoðunar að lífeyrissjóðir eigi að hafa góð og almenn siðferðisleg viðmið við sínar fjárfestingar. Þeir eiga að gæta þess að þau fyrirtæki sem þeir fjárfesta í fylgi góðum stjórnarháttum og að þeir misbjóði ekki velsæmi almennings með framferði sínu, auk þess að skila góðri ávöxtun til eigenda. Í þessum efnum koma eðli málsins samkvæmt oft upp álitamál.

Vík ég þá að spurningum hv. þingmanns, sem hann náði reyndar ekki að ljúka en var búinn að láta mig vita af fyrir þessa umræðu.

Í fyrsta lagi spyr hv. þingmaður hvort breyta þurfi reglum um fjárfestingarstefnu lífeyrissjóðanna í lögum nr. 129/1997, með tilliti til krafna um að fjárfestingar lífeyrissjóða þjóni loftslagsmarkmiðum og markmiðum um sjálfbærni og ef svo er, þá hvernig.

Því er til að svara að Alþingi hefur þegar afráðið, með lögum nr. 113/2016, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, að lífeyrissjóðir skuli setja sér siðferðisleg viðmið í fjárfestingum. Líkt og fram kom í nefndaráliti efnahags- og viðskiptanefndar við meðferð málsins er gert ráð fyrir því að nánari afmörkun slíkra reglna verði á hendi hvers sjóðs.

Núverandi lagaumgjörð stuðlar að því að langtímasjónarmið séu höfð að leiðarljósi, til að mynda loftslagsmarkmið til langs tíma við mótun og framfylgd fjárfestingarstefnu lífeyrissjóðanna. Telja má augljóst að markmið um sjálfbærni falla að því leiðarljósi. Í því sambandi er rétt að geta þess að Landssamtök lífeyrissjóða stóðu fyrir námskeiði, í samvinnu við Félagsmálaskóla alþýðu, þar sem Lára Jóhannsdóttir lektor fjallaði um samfélagslega ábyrgð fyrirtækja og stofnana.

Í öðru lagi er spurt hvort ég telji að breyta þurfi fyrrnefndum lagareglum svo fjárfestingar lífeyrissjóða standist kröfur um virðingu fyrir almennum mannréttindum og réttindum barna sérstaklega.

Ég tek undir það sem fram kemur í áðurnefndu nefndaráliti um að mikilvægt sé að fjárfestingarstefna lífeyrissjóða endurspegli almenn siðferðisleg viðmið. Ég geri ráð fyrir því að væntingar almennings og sér í lagi sjóðfélaga í þeim efnum muni ná fram að ganga með því að viðmiðum sem varða mannréttindi verði fundinn staður í siðareglum og þar með í fjárfestingum sjóðanna. Hér vil ég þó taka fram að ég tel ekki að pottur sé brotinn í þessum efnum eins og mál standa nú.

Í síðasta lagi spyr hv. þingmaður mig hvort ég telji ástæðu til að koma á fót siðaráði lífeyrissjóðanna.

Í umræddum lögum er lögð sú skylda á lífeyrissjóði að þeir setji sér siðferðisleg viðmið í fjárfestingum og þau viðmið teljast hluti af fjárfestingarstefnu þeirra. Fjárfestingarstefna er undirrituð af stjórn og framkvæmdastjóra lífeyrissjóðs, send Fjármálaeftirlitinu til samþykktar og birt með ársreikningi. Í ljósi eftirlits FME tel ég því ekki að svo komnu máli að þörf sé á að koma á fót slíku ráði. Lífeyrissjóðirnir hafa brugðist vel við og því þykir mér rétt að bíða og sjá eins og sakir standa.

Samandregið tel ég að nálgun núgildandi laga sé heppileg. Almenn lög kveða á um virðingu fyrir mannréttindum og umhverfismálum. Til viðbótar kveða lögin á um að lífeyrissjóðir setji sér sjálfir sín siðaviðmið. Það er stjórna þeirra, sjóðfélaga, fjölmiðla og Fjármálaeftirlitsins að stuðla að því að siðaviðmiðin gefi skýrar leiðbeiningar um siðrænt innihald fjárfestinga og að siðaviðmiðunum verði framfylgt.