146. löggjafarþing — 59. fundur,  25. apr. 2017.

störf þingsins.

[13:32]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Það eru í raun sögulegar blekkingar að halda því fram að verið sé að efla heilbrigðismál í nýrri ríkisfjármálaáætlun sem nú liggur fyrir þinginu. Raunar eru þessar blekkingar bæði ósvífnar og óásættanlegar. Í fyrsta lagi er ekki gerður greinarmunur á útgjöldum sem fara í rekstur og fjárfestingar. Í áætluninni er öllu blandað saman og niðurskurður í rekstri falinn í fjárfestingum. Talað er um 45 milljarða aukningu í heilbrigðisþjónustu þótt yfir 90% fari í húsbyggingar og innan við 10% upphæðarinnar í rekstur. Framsetning af þessu tagi er beinlínis gerð í blekkingaskyni. Raunar er þetta líka gert í áætluninni þar sem fráleit frammistaða í menntamálum er falin í Húsi íslenskra fræða sem er þörf framkvæmd og löngu tímabær en sannarlega ekki rekstur.

Hins vegar er það talnaleikurinn allur þar sem 45 milljarðar verða 5,2 í mínus þegar betur er að gáð. Á næstu fimm árum á samkvæmt ríkisfjármálaáætlun að verja 45 milljörðum til sérhæfðrar sjúkrahúsþjónustu á Íslandi og af því guma ráðherrar og segja aukninguna aldrei hafa verið meiri. María Heimisdóttir, framkvæmdastjóri fjármálasviðs Landspítalans, rakti þessa tölu upp í smáatriðum á ársfundi Landspítalans í gær og í sjónvarpsfréttum RÚV. Staðan er þessi: 35,6 milljarðar fara í fjárfestingar vegna byggingar nýs Landspítala. Þegar afgangurinn er svo skoðaður kemur á daginn að miðað við sérverkefni þegar ákveðin, mannfjölgun og aðra þætti er niðurstaðan í raun niðurskurður upp á 5,2 milljarða í þjónustuna sjálfa. Hvar á að taka það? Úr rekstri spítalanna, Landspítalans, úr öðrum heilbrigðisverkefnum eða hvað? Þannig er ekki um að ræða aukningu heldur niðurskurð. Talnaleikur sem í raun miðar að því að pakka alvarlegum niðurskurði inn í hús.

Loks eru það átökin um einkavæðinguna samkvæmt skilningi heilbrigðisráðherra sem ætlaði að setja heilbrigðismál í forgang en er nú búinn að galopna á hvers kyns einkarekstur á sjúkrahúsum með óheftan aðgang að ríkissjóði. Þrátt fyrir alvarlegar athugasemdir landlæknis og þrátt fyrir orð ráðherra sjálfs á Alþingi 23. mars, eftir að hann var þráspurður, eru að verða hér straumhvörf í heilbrigðismálum á Íslandi. Niðurstaðan er þessi: (Forseti hringir.) Niðurskurður, einkavæðing og blekkingar. Ég spyr, virðulegur forseti: Var kosið um þetta? (Gripið fram í: Heyr, heyr.)