146. löggjafarþing — 59. fundur,  25. apr. 2017.

störf þingsins.

[13:38]
Horfa

Orri Páll Jóhannsson (Vg):

Frú forseti. Í dag höldum við hátíðlegan dag umhverfisins og minnumst þá Sveins Pálssonar sem var einn fyrsti Íslendingurinn til þess að vekja athygli á mikilvægi þess að vernda náttúruna og ganga ekki um of á gæði hennar. Þetta var fyrir 200 árum síðan. Samkvæmt bráðabirgðaákvæði laga um landsáætlun um uppbyggingu innviða til verndar náttúru og menningarsögulegum minjum sem samþykkt var á Alþingi í mars á síðasta ári þá átti þann 1. janúar sl. að liggja fyrir tillaga til þingsályktunar um stefnumarkandi áætlun til 12 ára. Auk þessa átti ráðherra að leggja fram og birta opinberlega áætlun um uppbyggingu innviða á ferðamannaleiðum, ferðamannastöðum og ferðamannasvæðum sem gilti út þetta ár, en ekkert bólar á þeim áætlunum. Það liggja þó fyrir drög sem birt voru í október á síðasta ári af þeirri áætlun sem átti að taka sérstaklega til ársins í ár. Í þeim kemur fram, með leyfi forseta:

„Aukning landvörslu og umsjónar er mikilvæg í ljósi þess hversu innviðauppbyggingu er víða ábótavant og þeirrar staðreyndar að langan tíma mun taka að byggja upp.“

Í skriflegu svari umhverfis- og auðlindaráðherra við fyrirspurn minni um þessi mál kemur fram að hann hyggist beita sér fyrir því að landvarsla verði efld í takt við fjölgun ferðamanna þegar á þessu ári. Jafnframt segir í svari ráðherra, með leyfi forseta:

„Enn liggur ekki fyrir hvert umfang frekari aukningar geti orðið.“

Þetta var í byrjun mars. Nú er farið að halla í maí og þriðjungur ársins sem tímabundna áætlunin átti að ná til er liðinn. Það liggur fyrir að um 80% þeirra ríflega 2 milljóna ferðamanna sem eru væntanlegir til landsins í ár koma hingað sérstaklega vegna náttúrunnar. Hana er mikilvægt að vernda og tryggja að við göngum ekki um of á gæði hennar. Það er enn brýnna nú en fyrir 200 árum þegar Sveinn Pálsson var uppi. Landverðir gegna þar lykilhlutverki.

Frú forseti. Þessi dráttur á áætlunargerð er óásættanlegur og brýnt að umfang frekari aukningar til landvörslu skýrist hið fyrsta.