146. löggjafarþing — 59. fundur,  25. apr. 2017.

störf þingsins.

[13:40]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Frú forseti. Hver er auðlindastefna Íslands? Hver er umhverfisstefna þessarar ríkisstjórnar? Hæstv. umhverfisráðherra hefur sagt að nú verði ekki lengur stuðlað að því að hér taki mengandi stóriðja til starfa, þangað eigi væntanlega ekki að selja rafmagn. Ágreiningur virðist vera milli hæstv. umhverfisráðherra og hæstv. iðnaðarráðherra um skilgreiningu á því hvaða starfsemi falli undir mengandi stóriðju. Alla vega stendur á svari frá hæstv. iðnaðarráðherra sem fékk fyrir rúmum mánuði spurningar frá mér um skilgreininguna. Það er nauðsynlegt að fá skýr svör við því um hvaða starfsemi er verið að ræða þegar hæstv. ráðherrar tjá sig um mengandi stóriðju. Er fiskeldi í opnum sjókvíum talin mengandi stóriðja?

Umræðan um fiskeldi í opnum sjókvíum undanfarið hefur ekki einungis snúið að skipulags- og atvinnumálum, sem betur fer, heldur ekki síður að umhverfismálum og hvaða áhætta sé tekin við að veita leyfi fyrir fiskeldi í opnum sjókvíum. Hvernig er leyfunum úthlutað til að nýta þessa auðlind? Hvaða gjald rennur í sameiginlega sjóði landsmanna? Hver er stefnan? Frá upphafi olíuvinnslunnar hafa Norðmenn gætt þess vandlega að arðurinn af olíuauðlindinni renni í fjárfestingarsjóð þjóðarinnar. Í fyrradag var sagt frá því í fréttum Stöðvar 2 sem kallað var eitt stærsta orkuverkefni Íslands, um rannsóknir og leit að jarðhita við strendur landsins. Þeir sem leita orkunnar fá síðan, ef hún finnst, forgang á nýtingarleyfi til raforkuframleiðslu. Munu þeir greiða skatt af auðlindarentunni að norskri fyrirmynd?

Þann 9. mars sl. óskaði ég eftir svörum frá hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra um hverjar yrðu tekjur ríkissjóðs ef raforkufyrirtæki greiddu skatt af auðlindarentu til ríkissjóðs að norskri fyrirmynd. Engin svör hafa borist þótt liðnar séu rúmar sex vikur frá því að spurningin var lögð fram.

Hver er auðlindastefnan, frú forseti? Er hún kannski bara: (Forseti hringir.) fyrstur kemur, fyrstur fær?