146. löggjafarþing — 59. fundur,  25. apr. 2017.

störf þingsins.

[13:47]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Frú forseti. Ég vil ræða réttindi launafólks. Baráttudagur verkafólks, launafólks í landinu er fram undan, 1. maí. Ég hvet alla til að taka þátt í kröfugöngum vítt og breitt um landið. Það veitir ekki af með þessa hægri ríkisstjórn hér við völd að brýna járnin. Það er boðað í nýrri fjármálaáætlun að skerða grunnréttindi verkafólks með því að stytta atvinnuleysisbótatímabilið í tvö ár. Án nokkurs samráðs við verkalýðshreyfinguna er þetta boðað.

Þetta er ein af grunnstoðum þess sem launafólk í landinu hefur áunnið sér með langri baráttu, að hafa rétt á því að fara á atvinnuleysisbætur — eða laun, myndi ég kalla það — þegar atvinnuleysi er. Það er búið að skerða þau réttindi. Árið 2006 voru þau skert, fóru úr fimm árum í þrjú ár. 2014 fóru þau úr þrem árum í tvö og hálft. Nú er boðað að stytta tímabilið í tvö ár.

Atvinnuleysi er ekkert grín. Það er enginn atvinnulaus að gamni sínu. Ég hvet eindregið til þess að allar vinnumarkaðsaðgerðir séu gerðar með jákvæðum og uppbyggilegum hætti eins og var gert eftir hrun af vinstri stjórninni, að auðvelda fólki á atvinnuleysisbótum að fara í nám í framhaldsskólunum. Hvað gera núverandi ríkisstjórn og sú sem var áður? Þær hamla því að fólk geti farið í framhaldsskóla 25 ára. Það er ekki jákvætt skref. En við getum ekki beint atvinnulausu fólki inn á framfærslustyrki sveitarfélaga sem er allt annar handleggur og tekur ekki mið af því að launafólk er búið að ávinna sér þessi réttindi. Það er alveg lágmark og skýr krafa (Forseti hringir.) að ríkisstjórnin og ríkisvaldið hverju sinni hafi samráð við launþegahreyfinguna, enda féll dómur hjá Héraðsdómi Reykjavíkur, (Forseti hringir.) VR sótti mál gegn ríkinu og vannst það mál. (Forseti hringir.) Menn höfðu ekki leyfi til að (Forseti hringir.) til að framkvæma þetta eins og var gert. (Forseti hringir.)

Frú forseti.

(Forseti (UBK): Forseti verður að biðja hv. þingmenn að virða tímamörk. Þegar hv. þingmenn eru komnir 20 sekúndur yfir tveggja mínútna ræðutíma þykir forseta nóg um.)